Brown Swiss – elsta mjólkurkúakyn heimsins
04.09.2010
Brown Swiss kúakynið er afar vinsælt kyn sökum heppilegrar stærðar, góðrar endingar og einstaks lundarfars gripanna. Fitu og próteinhlutfallið er einnig heppilegt til ostaframleiðslu og hafa þessir framangreindu eiginleikar gert það að verkum að kynið er í dag næst útbreiddasta kúakyn heimsins, en finna má nautgripi af Brown Swiss í meira en 60 löndum.
Uppruni
Flestir fræðimenn eru á því að Brown Swiss kúakynið sé það elsta
sem þekkt er í heiminum en kynið kemur frá norð-austurhluta Sviss. Fornleifafræðingar hafa fundið kúabein sem talið er að séu hart nær 6 þúsund ára gömul og að séu úr Brown Swiss. Þá eru til heimildir um skipulagða ræktun þessara gripa frá því fyrir rúmum eitt þúsund árum síðan.
Kynið þykir einstaklega harðgert af mjólkurkúakyni að vera, enda ræktað fyrir harðgert landslag Sviss þar sem m.a. er algengt að beita kúnum á grýtt brattlendi.
Útlit
Brown Swiss nautgripir eru leirljósir með dökka umgjörð um augun, sem léttir þeim lífið í mikilli sól. Bæði eru til hyrndir og kollóttir gripir, en hyrndir gripir eru með frekar stutt horn sem sveigjast upp og út á við. Fullorðnar eru kýrnar 500-700 kg og nautin 800-1150 kg.
Eiginleikar
Brown Swiss eru harðgerðir gripir með að jafnaði góða endingu og sterka byggingu, sér í lagi fætur og klaufir. Kynið er í raun tvínytja, þar sem það hentar einnig ágætlega til kjötframleiðslu. Kýrnar eru með hátt efnainnihald mjólkur og framleiða prótein og fitu í jafnari hlutföllum en flest önnur kúakyn heimsins gera. Þessi eiginleiki gerir mjólk frá Brown Swiss einkar áhugaverða til ostaframleiðslu. Sterk fótagerð þeirra gerir það svo að verkum að endingin er meiri en margra annarra mjólkurkúakynja. Þá spillir ekki að ekkert annað kyn í heiminum fær eins jákvæða umsögn varðandi geðslag og umgengnisþætti, en gripirnir eru einstkalega þægilegir í meðförum.
Algeng meðalnyt er um 7-8.000 kg en það er þó afar misjafnt eftir löndum. Þannig er t.a.m. meðalnytin í Sviss um 7.000 kg en í Bandaríkjunum 10.000 kg.
Útbreiðsla
Í dag er Brown Swiss næst útbreiddasta mjólkurkúakyn heimsins með um 8 milljón skráða gripi í skýrsluhaldskerfum víða um heim, en talið er að heildar stofninn telji um 14 milljón dýr. Kynið er skráð í meira en 60 löndum og má finna nánast um allan heim, allt frá köldustu svæðum Kanada til miðjarðarhafslandanna og allt þar á milli.
Samantektin um Brown Swiss kúakynið er hluti af kynningum naut.is á hinum fjölbreyttu kúakynjum heimsins sem munu birtast og hafa verið að birtast lesendum naut.is. Samantektin byggir að mestu á upplýsingum af veraldarvefnum, mest frá afar áhugaverðri heimasíðu um ýmis kúakyn www.thecattlesite.com