Breyttar áherslur í fóðri mjólkurkúa
08.05.2009
Mánudaginn 11. maí kl. 15 verður málstofa í Ásgarði, Hvanneyri. Grétar Hrafn Harðarsson dýralæknir og tilraunastjóri hjá LbhÍ verður með fyrirlestur sem ber heitið Breyttar áherslur í fóðrun mjólkurkúa. Í erindinu verður fjallað um helstu áherslubreytingar í fóðrun mjólkurkúa síðustu 30 ár. Margt hefur áhrif á ákvarðanatöku bóndans um val á fóðri. Það mikilvægasta er að koma til móts við þarfir gripsins, en ýmsar ytri aðstæður eins og framleiðslustýring, markaðsaðstæður og verð á fóðri hafa einnig gríðarleg áhrif á þessa ákvarðanatöku. Hægt er að fylgjast með fyrirlestrinum á heimasíðu LbhÍ þegar þar að kemur.
Undanfarin ár hefur byggrækt eflst og í dag er bygg að verða mjög mikilvægur þáttur í fóðrun mjólkurkúa. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram og að fóðurinnflutningur dragist saman við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu. Greint verður frá rannsóknum á Stóra Ármóti sem hafa það að markmiði að meta fýsileika þess að auka hlut byggs í fóðri mjólkurkúa.
Grétar Hrafn lauk námi í dýralækningum árið 1978 frá Edinborgarháskóla og framhaldsnámi MPhil í fóðrun og efnaskiptasjúkdómum við sama skóla árið 1980. Að loknu námi vann hann við almennar dýralækningar í Suður-Englandi í tvö ár. Hann var gæðastjóri Holtabúsins á árunum 1982-1985, héraðsdýralæknir í Helluumdæmi árin 1986-1999 og frá árinu 2000 hefur hann verið tilraunastjóri Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og síðar Landbúnaðarháskóla Íslands á Stóra Ármóti.