Breytingar á reglum um gæðastýringu í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar
29.10.2009
Eins og fram kom í umræðum hér á naut.is fyrr í haust, voru ákveðnir ágallar á reglum um gæðastýrt skýrsluhald í nautgriparækt. Stjórn Bændasamtaka Íslands hefur nú, að viðhöfðu samráði við LK, ákveðið breytingu á reglunum.
Þær voru á þá leið, að skýrsluhaldari sem ekki stóðst reglur á t.d. fyrsta ársfjórðungi verðlagsárs, varð fyrir mun meira tjóni en sá sem ekki stóðst reglur á þeim síðasta. Slíkt gengur vitanlega ekki. Með breytingunum verður 3. grein þeirra svohljóðandi:
“Þau bú sem ekki standast ofangreindar kröfur, fá ekki greiðslur fyrir viðkomandi ársfjórðung. Bú sem falla út af einum eða fleiri ársfjórðungum eiga rétt á að koma inn á næsta ársfjórðungi, enda hafi þau þá skilað öllum skýrslum það sem af er verðlagsárinu eigi síðar en fyrstu skýrslu þess ársfjórðungs og skilað kýrsýnum á undangengnum ársfjórðungum samkvæmt ofangreindum kröfum”.