Breytingar á mjólkursamningnum
18.04.2009
Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra landbúnaðar- og fjármála, Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands og Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda skrifuðu í dag undir breytingar á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, frá 10. maí 2004. Skjalið sem skrifað var undir má sjá hér.
Eins og flestum mun kunnugt, var ákveðið í fjárlögum 2009 að skerða samningsbundnar greiðslur samkvæmt búvörusamningum vegna fyrirséðra erfiðleika í ríkisfjármálum í kjölfar bankahrunsins. Aðilar hafa síðan kannað nánar réttarstöðu gildandi samninga og er niðurstaðan sú að veruleg réttaróvissa ríki um ofangreindar skerðingar gagnvart rétti einstakra bænda. Af þessum sökum hafa að undanförnu farið fram samningaviðræður milli ríkisvaldsins og bænda og hefur náðst framangreind sátt um breytingar á gildandi búvörusamningum.
Þessi samningsniðurstaða felur í sér að bændur gera sér grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er í ríkisfjármálum, en fyrir liggur að gæta verður mikils aðhalds á næstu árum. Bændur færa umtalsverða fórn í tvö til þrjú ár miðað við gildandi samninga en fá í staðinn framlengingu um tvö ár þegar ætla má að ástand íslenskra efnahagsmála verði komið til betra horfs.
Samkomulagið er undirritað með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar Alþingis og samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu meðal kúabænda.