Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Breytingar á gripagreiðslum mjólkur- og holdakúa

09.08.2022

Hópur nautgripabænda óskuðu eftir því við framkvæmdanefnd búvörusamninga í upphafi sumars að skipting gripagreiðslna milli mjólkur- og holdakúa yrði endurskoðuð og að umræður og rökstuðningur yrðu skráð í fundargerð. Í framhaldinu óskaði framkvæmdanefnd búvörusamninga eftir áliti stjórnar Nautgripabænda BÍ á erindinu.

Samkvæmt 5. grein í samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt skal gripagreiðslum ráðstafað til aðila sem eiga kýr, sem skráðar eru í afurðaskýrsluhaldi og bera kálfi a.m.k. annað hvert ár. Heildargripagreiðslur skiptast í tvo flokka, mjólkurkýr og holdakýr. Skipting heildarupphæðar milli flokkanna miðaðist í upphafi samningsins við 25.000 mjólkurkýr og 3.000 holdakýr og skal sú skipting endurskoðuð árlega af framkvæmdanefnd búvörusamninga. Þessi skipting hefur þó ekki verið endurskoðuð undanfarin ár.

Frá árinu 2017 til ársins 2022 hefur holdakúm fjölgað um rúm 61% eða úr 2.266 í 3.657. Á sama tíma fækkar mjólkurkúm um rúm 3% eða úr 26.742 í 25.859. Þannig er heildarfjöldi holdakúa m.v. árið 2022 nú tæpum 22% yfir viðmiðunarfjölda og mjólkurkýr rúmlega 3% yfir viðmiðunarfjölda samningsins. Árið 2017, á fyrsta ári nýrra búvörusamninga, voru gripagreiðslur á hverja holdakú 41,6% hærri en á hverja mjólkurkú. Nú, árið 2022 hefur þetta hlutfall snúist við og áætlaðar gripagreiðslur (fyrir breytingu) á hverja mjólkurkú 2022 voru tæplega 30% hærri en á hverja holdakú. Hafa þannig gripagreiðslur á hverja mjólkurkú hækkað á tímabilinu um tæp 18% á meðan gripagreiðslur á hverja holdakú hafa lækkað um tæp 36% þegar tekið er tillit til vísitölubreytingar.

Í upphafi samnings miðaðist skipting gripagreiðslna milli mjólkur- og holdakúa við hlutfall þeirra af heildarfjölda gripa auk þess sem gripagreiðslur á hverja holdakýr voru hafðar 41,6% hærri en á hverja mjólkurkýr. Við endurskoðun búvörusamninga 2019 breyttist hlutfall gripagreiðslna á milli mjólkur- og holdakúa hins vegar þar sem fjármagn af liðnum „greiðslur á innvegna mjólk“ var flutt yfir á „greiðslur út á greiðslumark“ og „gripagreiðslur – mjólkurkýr“. Var það gert í kjölfar þess að greiðslumarkskerfið var fest í sessi og til þess að styðja við minni bú. Samróma álit stjórnar var að halda skuli þeim fjármunum sem færðir voru yfir á „gripagreiðslur – mjólkurkýr“ við endurskoðun 2019 til hliðar við endurmat á hlutfalli gripagreiðslna á milli mjólkur- og holdakúa.

Í framhaldinu var ákveðið í ljósi mjög slæmrar stöðu nautakjötsframleiðenda að leiðrétta hlutföllin á gripagreiðslum milli mjólkur- og holdakúa, þar sem gripagreiðslur holdakúa eru stór hluti af tekjutryggingu holdabænda. Í upphafi samnings var lagt upp með að greiðslur á hverja holdakýr væru 41,6% hærri og ákveðið var að leggja til að því hlutfalli verði aftur komið á, þegar yfirfluttum fjármunum af innveginni mjólk er haldið til hliðar. Þegar tekið hefur verið tillit til þess skiptast gripagreiðslur þá þannig að 85% af heildarfjármunum gripagreiðslna leggjast á mjólkurkýr en 15% á holdakýr. Við þessa leiðréttingu lækka greiðslur á hverja mjólkurkú um 3.600 krónur en greiðslur á hverja holdakú hækka um rúmar 25.900 krónur.  

Í ljósi mikillar umræðu um gripagreiðslur á samfélagsmiðlum má benda á að skipting gripagreiðslna milli holda- og mjólkurkúa hefur ekki verið endurskoðuð árlega líkt og 5. grein samnings um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar kveður á um og holdabændur því þurft að taka á sig skerðingu undanfarin ár. Það samræmist ekki stefnu LK við endurskoðun 2019 þar sem lagt var upp með að til að hjarðeldi með holdakýr nái að þróast hér á landi, þarf að tryggja að stuðningur á hverja holdakú þynnist ekki of mikið út með auknum fjölda þeirra. Ákveðið var því að leiðrétta hlutföllin og einnig að betur yrði fylgst með þróun á hlutfall gripagreiðslna á milli mjólkur- og holdakúa og það endurmetið oftar.

,,Eftir talsverða yfirlegu og skoðun stjórnar á málinu varð niðurstaðan að hér væri um að ræða nauðsynlega leiðréttingu á framkvæmd samningsins þar sem hlutföllin hafa ekki verið endurskoðuð undanfarin ár líkt og samningurinn segir til um.

Samningur um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar gildir fyrir mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Stjórn Nautgripabænda BÍ ber sömuleiðis skylda til að verja hag búgreinarinnar í heild og taka m.a. ákvarðanir um útdeilingu fjármuna. Þær ákvarðanir geta verið misflóknar og stjórnarfólk í þessu tilfelli sett í ákveðið erfiða stöðu þar sem að leiðrétting á hlutföllum gripagreiðslna myndi þýða lægri greiðslur fyrir hverja mjólkurkú. Vert er þó að benda á að bændur með holdakýr hafa á sama tíma fundið fyrir því að hlutföllin hafa ekki verið endurskoðuð síðustu ár. Framkvæmdanefnd búvöru á að endurskoða hlutföllin árlega og reiknum við með að það verði gert aftur að ári“ segir Herdís Magna, formaður stjórnar Nautgripabænda BÍ.