Beint í efni

Breytingar á félagsgjöldum BÍ

22.04.2020

Breytingar á félagsgjöldum BÍ voru ákveðnar á síðasta Búnaðarþingi. Framvegis verða félagsgjöldin þrepaskipt og veltutengd. Núverandi félagsmönnum er bent á að yfirfara sína skráningu á Bændatorginu og gefa upp sína veltu af landbúnaðartengdri starfsemi. Gefinn er frestur til og með 5. maí til að ganga frá skráningu á Bændatorginu. Þeir félagsmenn sem ekki skrá sitt veltubil fyrir þann tíma geta átt von á að það verði áætlað.

Lægsta gjald 18.000 krónur á ári
Upplýsingar um veltu af landbún­aðarstarfsemi vegna félagsgjalda 2020 eru samkvæmt rekstrarframtali 2019. Miða skal við rekstrartekjur samtals að undanskildum söluhagnaði og öðrum tekjum en af landbúnaði. Nú er félagsgjaldið sett fram í tólf þrepum þar sem lægsta þrepið er 18.000 krónur, en hæsta þrepið með veltuviðmið yfir 85 m.kr. er nú 212.000 krónur.

Fulla aðild geta átt einstaklingar og lögaðilar sem stunda búrekstur í atvinnuskyni. Aðildin veitir full réttindi fyrir tvo einstaklinga. Félagsgjaldið verður innheimt samkvæmt meðfylgjandi töflu og til viðbótar verða auk þess innheimtar 2.000 krónur í Velferðarsjóð.

Ef fleiri en tveir aðilar standa að búrekstrinum þá er félagsgjaldið 18.000 krónur fyrir hvern félagsmann umfram það. Þeir sem eru með aukaaðild og kjósa að styðja við Bændasamtökin án atkvæðisréttar eða félagslegra réttinda greiða einnig 18.000 krónur.

Styrkir tekjugrunn BÍ
Ástæður fyrir breytingunni eru nokkrar. Aðalmarkmiðið er að mæta betur þörfum ólíkra hópa og um leið að gera sem flestum bændum kleift að vera í heildarsamtökum bænda. Ljóst var að styrkja þyrfti tekjugrunn samtakanna í gegnum félagsgjöldin til að tryggja rekstur samtakanna. Á liðnu Búnaðarþingi voru þær breytingar gerðar á samþykktum BÍ að ekki er skilyrði fyrir aðild að samtökunum að viðkomandi aðili sé jafnframt skráður í aðildarfélag. Eftir breytinguna er því heimilt að hafa beina aðild að samtökunum.

Skráning á veltu í gegnum Bændatorgið
Ofangreindar breytingar á félagsgjöldunum kalla á gott samstarf við okkar félagsmenn. Nú er farið fram á að þeir gefi sjálfir upp veltubil sitt af landbúnaðarstarfsemi. Eins og áður segir er gefinn frestur til og með 5. maí til að ganga frá skráningu á Bændatorginu. Þeir félagsmenn sem ekki skrá sitt veltubil fyrir þann tíma geta átt von á að því að veltubil þeirra verði áætlað. Samtökin munu sannreyna veltuna í slembiúrtaki með gögnum, en þá verður sérstaklega óskað eftir því.

Aðild að Bændasamtökunum borgar sig
Við bjóðum nýja félagsmenn velkomna. Hægt er að skrá sig í samtökin inni á Bændatorginu.

Bændur standa þétt saman
Meginverkefni Bændasamtaka Íslands er að gæta hagsmuna stéttarinnar. Félagsleg samstaða er dýrmæt og öflug starfsemi samtakanna eykur slagkraft bænda. Með aðild að BÍ njóta félagsmenn ýmissa réttinda og afsláttarkjara á þjónustu.

Fulltrúar BÍ svara fyrirspurnum í síma 563-0300 og í netfangið bondi@bondi.is.