Breyting á reglugerð um kvótamarkað
06.07.2010
Sjávarútvegs og landbúnaðarráðuneytið hefur gefið út reglugerð um breytingar á reglugerð um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum. Reglugerðina er að finna hér. Þar er tekinn af allur vafi á að reglugerðin taki ekki til eigendaskipta að lögbýlum með greiðslumark, að kaup- og sölutilboð skuli berast til MAST eigi síðar en 25. maí og 25. nóvember, svo sannreyna megi tilboðin áður en markaður er haldinn þann 1. næsta mánaðar. Einnig er bætt við grein um að kauptilboðum skuli fylgja bankaábyrgð.
Náist ekki fullt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar greiðslumarks skiptist greiðslumark sem selt verður hlutfallslega milli kaupenda í samræmi við magn hvers tilboðsgjafa. Leiguliðar fá nú 20 daga frest til að kaupa greiðslumark jarðarinnar á jafnvægisverði, í stað 10 daga áður.
Það vekur mikla athygli að ekki er að finna í reglugerðinni ákvæði um að fyrsti markaður skuli haldinn 15. september n.k., þar sem hægt verði að eiga viðskipti með greiðslumark sem gildir á yfirstandandi verðlagsári, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli bænda og samtaka þeirra þar um. Sú ákvörðun ráðherra veldur mjög miklum vonbrigðum og mun valda nokkrum fjölda bænda umtalsverðum búsifjum.