Breyta mjólk í umbúðir!
24.08.2016
Vísindamenn í Bandaríkjunum hafa þróað hreint ótrúlegar umbúðir fyrir matvæli en um er að ræða filmu sem líkist hefðbundnu plasti sem notað er í matvælaiðnaði, en það sem er einstakt við þessa filmu er að hún er unnin úr mjólk! Filman er unnin úr mjólkurpróteininu kaseini og er um margt lík plastfilmu en er um leið umhverfisvæn, eitthvað sem plast er svo sannarlega ekki.
Enn er verið að þróa þessa nýju mjólkurpróteinfilmu og er sérstaklega verið að vinna með bætta endingu en filman er svo umhverfisvæn að hún brotnar heldur hratt niður. Nú þegar hefur tekist að auka endingartíma filmunnar og hafa tilraunir sýnt að hana má leikandi borða svo nú er verið að þróa aðferð til þess að koma filmunni í spreybrúsa. Þá má einfaldlega úða matinn í stað þess að pakka honum í matarfilmu og skella svo í ísskápinn. Próteinfilman húðar þá matvælin og ver gegn súrefni og svo þegar komið er að því að nýta á ný, eru umbúðirnar einfaldlega borðaðar með/SS.