Beint í efni

Brexit: þurfa að semja við rúmlega 100 lönd

19.01.2018

Þegar Bretar ganga úr Evrópusambandinu 29. mars á næsta ári getur landið ekki lengur notfært sér þá milliríkjasamninga sem Evrópusambandið hefur gert við önnur lönd s.s. varðandi tollalækkanir og aðgengi að mörkuðum. Nú hafa kjötútflytjendur í Bretlandi sett fram áætlun sem miðar að því að geta áfram flutt út kjöt með sama hætti og áður en þessi áætlun gerir ráð fyrir að gera þurfi rúmlega 100 milliríkjasamninga á milli Bretlands og annarra landa.

Til þess að spara vinnu og tíma er talið er að bresk stjórnvöld muni einfaldlega bjóða þeim löndum, sem Evrópusambandið er með samninga við, samskonar viðskiptasamning og löndin hafa í dag. Engu að síður er ljóst að umfang samningagerðar er umtalsvert og þar sem ekki er nema rúmlega eitt ár þar til Brexit tekur gildi þá þarf að hafa hraðar hendur. Til viðbótar kemur svo að semja við sjálft Evrópusambandið en lönd þess kaupa í dag um helming alls þess kjöts sem selt er frá Bretlandi. Ef ekki verður samið sérstaklega um kjötmálin á milli Bretlands og Evrópusambandsins mun nautakjöt frá Bretlandi fá á sig 62% toll við innflutning til Evrópusambandsins/SS.