Beint í efni

Bretar loka afurðastöð – 100 missa vinnuna

19.04.2011

Breska mjólkurafurðafyrirtækið Medina Dairy hefur nú ákveðið að loka afurðastöðinni í Blaydon eftir að hafa keypt stöðina á um 780 milljónir króna ( 4,2 milljónir punda) fyrir rúmu ári síðan! Afurðastöðin hafði verið lokuð í nokkurn tíma í kjölfar gjaldþrots árið 2009, en þá misstu um 300 manns vinnuna. Þegar Medina hafði komið vinnslunni í gang á ný var vinnslugetan um 3 milljónir lítra af neyslumjólk í hverri viku og þar störfuðu 97 starfsmenn. Medina markaðssetur mjólk sína undir hinu þekkta vörumerki Watsons, sem margir kannast við sem til Englands hafa komið.

 

Að sögn forsvarsmanna Medina, sem er stærsta mjólkurafurðafyrirtækið í Englandi í einkaeigu, sýndi reynslan á þessu fyrsta rekstrarári þeirra með búið í Blaydon, að það væri einfaldlega hagkvæmara fyrir Medina að loka því aftur þar sem ekki hafði tekist að tryggja afurðunum næga markaði. Fyrra gjaldþrotið hafði leitt kaupendur annað og þeir voru ekki ginkeyptir fyrir því að hefja viðskiptin á ný. /SS