Beint í efni

Breskur kúabóndi gegn stórbúum!

22.11.2011

Kúabóndi í Somerset sýslu, Niel Darwent, í Suðvestur-Englandi hefur nú sett á fót eigið vörumerki, sk. Free Range Dairy sem leggja má út sem „mjólkurframleiðsla af beit“. Tilgangur vörumerkisins er að berjast gegn þeirri þróun sem þar í landi á sér stað með fækkun og stækkun kúabúa yfir í sk. stórbú, eða fjós með fleirum en 2.000 kúm. Segir hann vörumerkið ekki sett á fót til þess að gera lítið úr framleiðslu stórbúa heldur miklu fremur að geta gefið neytendum raunhæft val.

 

Vörumerkið mun tryggja að mjólkin komi frá búum þar sem kúnum er hleypt á beit og þar með klárlega ekki frá stórfjósunum, enda kýr þar inni allt árið. Ætlar Neil að gefa fleiri bændum færi á að nýta sér þetta vörumerki, uppfylli þeir þau skilyrði að mjólkin komi frá kúm á beit. Þess má til fróðleiks geta að Neil þessi er í dag með 650 mjólkurkýr á tveimur kúabúum/SS.