Beint í efni

Breskur almenningur mótmælir byggingu risafjóss!

17.03.2011

Íbúar í Lincolnskíri í Bretlandi eru afar óhressir með umsókn fyrirtækisins Nocton Dairies Ltd um heimild til byggingar á stórfjósi en til þess að flokkast sem sk. stórfjós (oft kölluð verksmiðjubú) er oftast miðað við að í þeim séu fleiri en 2.000 kýr. Samkvæmt fyrstu áætlun Nocton átti að byggja fjós fyrir 8.100 kýr en eftir að íbúar lýstu áhyggjum af mengun og slæmri ímynd slíkrar framleiðslu voru upphaflegar áætlanir skornar niður um rúman helming. Þrátt fyrir það er enn mótmælt enda fjós með 3.770 kúm mjög stórt!

 
Fulltrúar Nocton fyrirtækisins berjast fyrir hugmynd sinni, enda vilja þeir meina að stórbúskapur þeirra muni tryggja mörg störf og mikla uppbyggingu samhliða þeirra byggingaráformum. Framkvæmdaáætlun Nocton hljóðar upp á 34 milljón pund (um 6,4 milljarðar Íkr) og er ráðgert að við framleiðsluna starfi 60 manns. Þá á búið að vera umhverfisvænt, m.a. með útisvæði fyrir kýrnar og nýtingu á metangasi sem að sögn forsvarsmanna Nocton á að duga til kyndingar 830 heimila.

 
Judith Patridge, íbúi í þorpinu Nocton í nágrenni ætlaðs framkvæmdastaðar, telur að ætluð minnkun hafi ekkert að segja: „við höfum enga ástæðu til að ætla að þessi framkvæmdaáform séu heppileg fyrir okkar þorp“, sagði Judith í viðtali við breskan fjölmiðil. Margir íbúar í þorpinu hafa nú gengið í CAFFO sem eru samtök sem vinna gegn stórbýlisstefnu. Á móti segja forsvarsmenn Nocton að ef bresk yfirvöld heimili ekki stórbú þá muni þarlend mjólkurframleiðsla dragast saman á kostnað innfluttra mjólkurvara frá stórbúum í öðrum löndum.

 
Nú hafa komið fram tillögur að breytingum á breskum reglum sem etv. munu auðvelda stórbúum að hasla sér völl en upp hafa komið hugmyndir að sé um slíka stór bú að ræða þá megi þau ekki vera nær þéttbýli en 5-25 km eftir stærð þeirra. Alls óvíst er með framhald málsins en hægt er að fylgjast með umræðustrengjum á heimasíðu CAFFO samtakanna (www.caffo.co.uk) en þau munu halda áfram að berjast gegn fyrsta verksmiðjubúinu í mjólkurframleiðslu á Bretlandi! /SS