Beint í efni

Breskum kúabændum hótað lífláti

17.02.2018

Undanfarnar vikur hafa ákveðnir hópar sk. veganista, sem eru neytendur sem borða engar dýraafurðir, staðið fyrir harðri gagnrýni á bændur sem stunda búfjárrækt í Bretlandi og hafa þarlend bændasamtök reynt að svara fyrir búgreinarnar eftir bestu getu og hafa m.a. hvatt bændur til þess að taka þátt í umræðum um málefni búgreinanna. Hjónin Jonny og Dulcie Crickmore, reka kúabú og stunda sölu beint frá býli, hafa tekið áskorun bændasamtakanna til sín og komið fram í fjölmiðlum og tekið þátt í umræðum um búfjárrækt.

Þau hafa, á ýmsum samfélagsmiðlum, verið kölluð þrælahaldarar, morðingjar og nauðgarar og nú síðast var þeim hótað lífláti af öfgahópi veganista í Bandaríkjunum og þá var börnum þeirra einnig hótað. Þetta gerðist eftir að þau birtu mynd af þríbura kálfum á samfélagsmiðlum. Í tímaritinu Farmers Weekly er haft eftir Jonny að það hefði verið óhuggulegt að fá morðhótun og að lesa um að rétt væri að fjarlægja frá þeim börnin svo þau myndu upplifa söknuðinn við að hafa barn ekki hjá sér og fleira mætti nefna. Þau hafa nú þegar kært málið til lögreglu.

Samtök veganista í Bretlandi hafa nú einnig komið þeim Jonny og Dulcie til varnar og hafa fordæmt ummælin sem féllu og segja þau alls ekki gagnast umræðunni, heldur í raun bitna á hugmyndafræði veganista.

Þau hjónin hafa ekki bugast þrátt fyrir þessar öfgar og segja það afar mikilvægt að rödd bænda heyrist og að fámennur öfgahópur nái ekki að einangra umræðuna um landbúnað og búfjárrækt. Þá má segja að þau hafi fengið afar góðan stuðning annarra neytenda en þessar miklu öfgar hafa ýtt við öðrum neytendum og hefur sala mjólkurvara búsins aldrei verið meiri og anna þau vart eftirspurninni núna.

Bresku bændasamtökin hafa gefið út fjölbreyttar leiðbeiningar fyrir bændur sem vilja taka þátt í umræðum og m.a. gefið út eftirfarandi 5 ráð sem þau segja gott að hafa í huga í þungum umræðum á samfélagsmiðlum:
1. Skrifaðu stuttar og jákvæðar setningar sem hafa skýran boðskap um kúabúskap
2. Svaraðu og hvettu til umræðna með skynsamlegum spurningum
3. Ekki svara fólki sem er dónalegt eða sem vegur að þér sem persónu
4. Leiðréttu augljós ósannindi og notaðu myndir eða myndbönd til þess að leiðrétta sögusagnir eða lygar
5. Hugsaðu vandlega um það áður en þú útilokar einhvern frá umræðu, þar sem viðkomandi gæti þá haldið að þú sért að fela eitthvað

Benda má áhugasömum á fína heimasíðu kúabús hjónanna: www.fenfarmdairy.co.uk /SS.