Beint í efni

Breskir sérfræðingar í dýravelferð styðja risafjósahugmyndir !

31.08.2010

Breskir kúabændur sem vilja byggja risafjós, þ.e. fjós sem rúma fleiri en 1.000 kýr, hafa nú fengið stuðning frá þarlendu fagfólki. Opinber nefnd hefur nefninlega skilað áliti sínu á risafjósum þar sem fram kemur m.a. að nefndin sjái einungis fáa annmarka á því að hýsa kýr í allt árið um kring í afar stórum hópum.

 

Í bréfi til ríkisstjórnarinnar frá nefndinni kemur fram að forsendur þess að velferð kúnna

sé í lagi eru m.a. að hópastærðir séu takmarkaðar innan fjóssins og bústjórnin sé eins og best verði á kosið t.d. hvað varðar fóðrun og aðrar þarfir kúnna.

 

Þvert á það sem oft hefur verið sagt um þessi risafjós, þá telur nefndin ákveðna kosti fylgja því að vera með margar kýr saman í einu fjósi s.s. vegna fastráðningu dýralæknis og fóðurfræðings á viðkomandi bú. Aukið faglegt starf eigi að tryggja kúnum góða umönnun og þar með velferð, segir í svarbréfi nefndarinnar til landbúnaðarráðherra Englands, en nefndinni voru sendar nokkrar spurningar og álitamál varðandi byggingu risafjósa. Nefndin telur jafnframt að með nútíma hönnun fjósa og nýjasta tæknibúnaðinum sem völ er á um þessar mundir þá styðji það enn frekar við líðan kúnna.

 

Í svarbréfinu, sem er í 18 liðum, kemur fram að allir þessir þættir væru háðir því að viðkomandi búi væri vel og rétt stjórnað og ekki væri sparað í fjölda starfsmanna.

 

Þá kemur einnig fram að nefndin telur að hýsing kúa allt árið um kring sé klárlega neikvætt fyrir kýrnar enda nái þær ekki að sýna náttúrulegt beitaratferli auk þess sem líkur á fótameinum og/eða slysum af völdum lélegra gólfa í fjósum sé til staðar. Þrátt fyrir þessa annmarka metur nefndin það svo að svo fremi sem framangreindum atriðum sé mætt, þá sé velferð kúa sem hýstar eru allt árið ásættanleg.

 

Í Bretlandi virðist vera nokkuð almenn andstaða við byggingu risafjósa en undanfarna mánuði hefur umsóknum um byggingu slíkra fjósa fjölgað verulega, sem gerði það að verkum að óskað var álits nefndarinnar.

 

Smelltu hér til þess að lesa allt bréf nefndarinnar (er á ensku).