Beint í efni

Breskir kúabændur stöðvuðu lágvöruverðskeðjur

06.08.2012

Breskir kúabændur í aðgerðarhópnum FFA (Farmers For Action) náðu síðastliðinn fimmtudag loks til forsvarsmanna lágvöruverðskeðjanna Iceland og Farmfood, en þær verslunarkeðjur voru þær einu sem ekki sýndu málstað kúabænda stuðning í þeirra baráttu fyrir betri kjörum.

 

Bændurnir fóru í virkar aðgerðir og komu í veg fyrir að hægt væri að fara með vörur úr dreifingarmiðstöðvum verslunarkeðjanna. Þetta skilað afar skjótvirkum árangri og hafa nú forsvarsmenn beggja verslunarkeðja skipt um skoðun á aðstöðu kúabændanna!

 

Barátta bændanna hefur þegar skilað þeim árangri að allar afurðastöðvar drógu fyrirhugaða verðlækkun, sem taka átti gildi um mánaðarmótin á mjólk til baka. Þá hafa jafnframt margir aðilar í söluferlinu frá bónda til verslunar boðist til þess að opna bókhald sitt til þess að auðvelda kúabændum að finna skýringar á því að afurðaverðslækkanir hjá þeim í maí og júní skiluðu sér ekki beint til neytenda.

 

Kúabændurnir spyrja því eðlilega að því hver fékk auknar tekjur í vasann og hafa nú allar verslunarkeðjur fengið frest til 1. september til þess að gera grein hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Þess má geta að forsvarsmenn Iceland keðjunnar hafa þegar boðist til þess að opna bókhald sitt fyrir kúabændur og má búast við því að aðrar verslunarkeðjur fylgi í kjölfarið/SS.