
Brauðostar meðal sérostanna
22.05.2018
Á Alþingi liggur nú fyrir frumvarp landbúnaðarráðherra þess efnis að opna tollkvóta fyrir upprunatengda osta frá Evrópusambandinu að fullu á yfirstandandi ári. Saga málsins er sú að við afgreiðslu búvörusamninga haustið 2016 sammæltist meiri hluti atvinnuveganefndar um það við ráðherra að hraða innleiðingu á auknum kvótum vegna innflutnings á sérostum, þannig að hún komi öll til framkvæmda á fyrsta ári gildistíma samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, í stað þess að tollkvótinn myndi hækka í þrepum á 4 árum líkt og samningurinn kveður á um. Samhliða var því beint til ráðherra að aðgangsheimildum á innri markað Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir yrði einnig hraðað eins og mögulegt er enda byggjast slík ákvæði á gagnkvæmum aðgangsheimildum.
Í ræðu landbúnaðarráðherra á Alþingi 9. maí sl. kom fram að atvinnuvegaráðuneytið hefur ekki tekið viðræður upp við Evrópusambandið um hröðun aðgangsheimilda fyrir mjólkurafurðir og hefur formaður Bændasamtaka Íslands bent á að vegna þessa væri ekki grundvöllur fyrir hröðun á innleiðingu aukins kvóta fyrir sérosta, enda eigi gagnkvæmni að ríkja. Í dag er tollkvóti fyrir sérosta 20 tonn en verður samkvæmt samningnum 230 tonn.
Vert er að geta að þegar rætt er um sérosta er ekki einungis verið að tala um osta á borð við Parmesan eða franskan Roquefort heldur er um að ræða osta sem bera vernduð upprunatákn eða verndaða landfræðilega merkingu. Því er hér einnig um að ræða nokkuð venjulega brauðosta á borð við Gouda Holland og Noord-Hollandse Gouda. Verðlagsnefnd búvara ákveður heildsöluverð á brauðosti hérlendis og því gæti reynst nokkuð snúið fyrir íslenskar afurðastöðvar að bregðast við aukinni samkeppni á brauðostamarkaði að öllu óbreyttu.