Bragðbætt mjólk er málið
03.07.2013
Ný könnun frá sænska fyrirtækinu Tetra Pak, sem er leiðandi í umbúðaframleiðslu fyrir mjólkuriðnað, bendir til mikillar sóknar bragðbættrar mjólkur á komandi árum. Fyrirtækið hefur mælt verulega aukningu á sölu margskonar mjólkurdrykkja og telur að frá 2012 til ársins 2015 muni neysla á bragðbættri mjólk aukast úr 17 milljörðum lítra í 19 milljarða lítra eða um 4%. Á sama tíma telur Tetra Pak hins vegar að aukning í neyslu á hefðbundinni mjólk muni ekki aukast nema um 1,7% eða í 220 milljarða lítra.
Líkt er með margar aðrar mjólkurafurðir, þá er það hinn kínverski markaður sem dregur vagninn áfram þegar horft er til söluaukningarinnar en auk þess hefur verið vaxandi eftirspurn eftir bragðbættri mjólk í Indlandi, Indónesíu og Brasilíu/SS.