Borgfirðingar vilja að LK hugi að undirbúningi á innflutningi á erfðaefni
17.10.2005
Á haustfundi LK og Mjólkurbús Borgfirðinga, sem haldinn var í Hótel Borgarnesi í dag, var samþykkt ályktun þar sem því er beint til Landssambands kúabænda að fara nú þegar að huga að undirbúningi á innflutningi erfðaefnis til blöndunar við íslenska kúastofninn vegna erfiðleika í framleiðslunni. Ályktunina má lesa í heild hér:
„Fundur í Mjólkurbúi Borgfirðinga haldinn í Hótel Borgarnesi 17. október 2005 beinir því til Landssambands Kúabænda að fara nú þegar að huga að undirbúningi á innflutningi erfðaefnis til blöndunar við íslenska kúastofninn.
Greinargerð
Vegna stóraukinnar sölu á íslenskum mjólkurvörum er nú svo komið að hætta virðist á að framleiðslan nægi ekki til að mæta þörfum markaðarins. Jafnframt eru vísbendingar um að íslenska kúakynið hafi ekki burði til að fullnægja hinni auknu eftirspurn til langframa þótt reynt verði að auka fræðslu og efla kynbætur.
Það gengi þvert á öll þau gildi sem við viljum hafa í heiðri að flytja inn hráefni til mjólkurvinnslu.
Því telur fundurinn það nánast ábyrgðarleysi að fara ekki sem fyrst að undirbúa innflutning á erfðaefni til blöndunar við íslenska kúastofninn, sem vafalítið er öruggasta leiðin til að auka afköst hans.
Jafnframt þarf að rannsaka íslenska kúakynið og erfðafræðilega sérstöðu þess svo tryggt sé að hið innflutta erfðaefni nýtist sem best til kynbóta. Innflutningur fósturvísa, uppeldi gripa í einangrun, öflun erfðaefnis frá þeim og nýting þess til innblöndunar er langur ferill og hvenær sem er á þeim tíma er hægt að hætta við verkefnið ef ástæða þykir til.“
Samþykkt á fundinum með 11 atkvæðum gegn 4.