Bónusgreiðslur FrieslandCampina höfðu áhrif
04.03.2016
Við sögðum frá því fjórða janúar sl. (sjá hér) að hollenska afurðafélagið FrieslandCampina var í vandræðum með að geta ekki unnið úr allri mjólk sem félagið fékk og þurfti því að draga úr innvigtun mjólkurinnar á meðan unnið væri að eflingu á vinnslugetu félagsins. Félagið hleypti því af stokkunum bónusgreiðslukerfi sem var þannig byggt upp að ef félagsmenn myndu framleiða jafn mikið eða minna en þeir gerðu á tímabilinu 13.-27. desember þá fengu þeir greiddan bónus ofan á hina innvegnu mjólk. Um tímabundið tilboð var að ræða, frá 1. janúar til 11. febrúar.
Nú hefur félagið svo gefið út hvernig kerfið þeirra virkaði og er óhætt að segja að félagsmenn FrieslandCampina hafi brugðist hratt við. Innvigtunin minnkaði um 35 milljónir lítra á þessu tímabili en alls var greiddur bónus til 60% innleggjenda félagsins, en þeir eru alls 19 þúsund talsins/SS.