Beint í efni

Bólusetja þarf 650.000 gripi í Danmörku gegn Bluetongue – kostar hálfan milljarð

06.05.2008

Danska matvælaráðuneytið, Matvælaeftirlitið og Dansk kvæg hafa ákveðið að bólusetja alla nautgripi, sauðfé og geitur á búum á Suður-Jótlandi, Fjóni og Sjálandi, alls 650.000 gripi. Kostnaður vegna þessa er um 30 milljónir DKK sem bændur þurfa að greiða. Það er 481 milljón kr. á gengi dagsins. Möguleiki er á að þeir fái þann skaða bættan að einum þriðja frá ESB, þar sem þetta er hluti af aðgerð á vegum sambandsins til að útrýma bluetongue sjúkdómnum. Ætlunin er að bólusetningin fari af stað í júlímánuði og að hún taki um tvo og hálfan mánuð.

Ýmis vandamál fylgja bólusetningu á skala sem þessum. Mjög mikil vinna verður við að smala gripunum saman og fyrirséð er að ekki eru til staðar nándar nærri nógu margir dýralæknar til að framkvæma bólusetninguna. Rætt hefur verið um að senda frjótækna og klaufskurðarmenn á námskeið til að létta undir með dýralæknunum. Sjúkdómsins hefur ekki orðið vart í Danmörku, fyrir utan einn grip sem drapst á Lollandi í októbermánuði. Hann herjar hins vegar í Þýskalandi, Hollandi og Belgíu og hefur haft víðtæk og neikvæð áhrif á framleiðsluna þar. Bluetongu smitast milli gripa með litlum maurum.

 

Heimild: Maskinbladet.dk