
Blóðtaka úr fylfullum hryssum
22.11.2021
Matvælastofnun hefur nú til rannsóknar myndband frá dýraverndunarsamtökunum AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tiersxhutzbund Zürich) sem sýnir myndbrot frá blöðtöku úr fylfullum hryssum. Verklag sem þar kemur fram virðist stríða gegn starfsskilyrðum starfseminnar sem eiga að tryggja velferð hryssnanna. Bændasamtökin líta málið alvarlegum augum.
Einn af megin styrkleikum íslensks landbúnaðar er að hér gilda framsæknar reglur um dýravelferð. Bændasamtök Íslands ætlast til að bændur fylgi þessum reglum án undantekninga og munu hér eftir sem hingað til fordæma slæma meðferð á dýrum enda hafa samtökin ávallt lagt áherslu á að íslenskur landbúnaður sé til fyrirmyndar hvað varðar dýravelferð og góðan aðbúnað.
Um blóðmerahald gilda lög um velferð dýra, nr. 55/2013, sbr. síðari breytingar og reglugerð um velferð hrossa, nr. 910/2014. Eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerðarinnar er á höndum MAST. Afar ströng viðurlög eru við því þegar slík frávik koma upp.
Bændasamtökin hvetja alla aðila í þessari atvinnugrein, MAST og Ísteka að hefja tafarlaust vinnu við að bæta eftirlit, þjálfun og verkferla til að koma í veg fyrir að tilvik eins og þessi komi upp í framtíðinni. Lýsa samtökin sig reiðubúin til þess að aðstoða eftir föngum.
Hér má sjá tilkynningu um málið frá MAST.