Beint í efni

Bill og Melinda Gates vilja bæta kýrnar

24.02.2018

Fjárfestingasjóður Bill og Melindu Gates „Bill and Melinda Gates Foundation“ hefur um árabil stutt við margskonar verkefni sem ætlað er að bæta heiminn en Bill Gates er sem kunnugt er stofnandi Microsoft og verið með efnuðustu mönnum heims um árabil. Nú hefur fjárfestingasjóður þeirra hjóna stutt bresku samtökin Global Alliance for Livestock Veterinary Medicines um 40 milljónir dollara eða um 4 milljarða íslenskra króna í þeim tilgangi að skapa hina „fullkomnu kú“! Samkvæmt áætlun samtakanna er stefnt að því að ná að rækta kýr sem eru með framleiðslugetu evrópskra kúa, en hitaþolnar eins og frænkur þeirra í Afríku.

Haft hefur verið eftir Bill Gates að hann telji þessum fjármunum vel varið enda megi gjörbreyta mjólkurframleiðslunni í Afríku og víðar í heiminum ef unnt er að kynbæta kýr þannig að þær þoli mikinn hita en geti á sama tíma mjólkað vel. Í dag er afurðamunurinn á hitaþolnum kúm og hinum kuldakærari nærri fjórfaldur, evrópskum og kuldakærari kúm í hag. Ekki liggur fyrir hvernig staðið verður að þessu verkefni, né hvernig erfða- og kynbótafræðingarnir ætla að ná þessum árangri með hina „fullkomnu kú“ en verkefnið er vissulega afar áhugavert/SS.