BÍ senda utanríkisráðherra bréf – vilja að staða landbúnaðarins í aðlögunarferlinu að ESB verði skýrð
22.09.2010
Bændasamtök Íslands sendu í dag bréf til Össurar Skarphéðinssonar, ráðherra utanríkismála, þar sem farið er fram á að staða landbúnaðarins í aðlögunarviðræðunum að ESB verði skýrð. Bréfið má lesa í heild sinni með því að smella hér. Í viðtali við Össur á vefritinu Pressan.is þann 24. ágúst sl. var eftirfarandi haft eftir ráðherra utanríkismála:
„Það er algjör misskilningur hjá Jóni Bjarnasyni að það sé aðlögun í gangi. Ef að það reynist nauðsynlegt að breyta lögum eða jafnvel einhverjum stofnanastrúktúr, þá er það ekki gert fyrr en eftir að þjóðin hefur samþykkt aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem við þurfum að gera til að fullnægja skilyrðum Evrópusambandsins er að leggja fram trúverðuga áætlun um með hvaða hætti við ætlum að ráðast í aðlögun eftir að búið er að samþykkja aðild. Þannig að þetta er tóm vitleysa hjá Jóni“.
Viðtalið við Össur Skarphéðinsson má lesa hér. Í almennri afstöðu ESB til opnunar samningaviðræðna við Ísland, sem sett var fram á ráðherrafundi ríkjaráðstefnunnar þann 27. júlí stendur m.a. eftirfarandi:
- Á tímabilinu fram að aðild er gerð sú krafa að Ísland samræmi í áföngum stefnumið sín gagnvart þriðju löndum og afstöðu sína innan alþjóðastofnana við þau stefnumið og afstöðu sem Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa samþykkt.
- Samhliða aðildarviðræðunum mun Evrópusambandið halda áfram pólitísku samráði og skoðanaskiptum um borgaralegt samfélag við Ísland í því augnamiði að efla samstöðu og tryggja stuðning borgaranna við aðildarferlið.
- Farið verður fram á það við Ísland að það tilgreini afstöðu sína með tilliti til regluverksins og geri grein fyrir því hve vel miði áfram við að uppfylla viðmiðanirnar. Rétt innleiðing Íslands á regluverkinu og framkvæmd þess, þ.m.t. árangursrík og skilvirk beiting af hálfu viðeigandi stofnana á sviði stjórnsýslu og dómsmála, mun ákvarða hversu hratt samningaviðræðurnar ganga fyrir sig.
- Í þessu skyni mun framkvæmdastjórnin fylgjast náið með framvindu Íslands á öllum sviðum og nota til þess öll tiltæk stjórntæki, þ.m.t. eftirlit sérfræðinga á vettvangi af hálfu framkvæmdastjórnarinnar eða fyrir hennar hönd. Framkvæmdastjórnin mun reglubundið upplýsa ráðið um framvindu Íslands á tilteknum sviðum meðan á samningaviðræðum stendur, einkum þegar lögð eru fram drög að sameiginlegri afstöðu ESB. Ráðið mun taka tillit til þessa mats þegar það ákveður frekari ráðstafanir sem tengjast samningaviðræðunum um þann kafla. Auk upplýsinganna, sem ESB getur farið fram á vegna samningaviðræðna um hvern kafla og gert er ráð fyrir að Ísland leggi fram fyrir ráðstefnuna, verður Ísland beðið um að halda áfram að leggja reglubundið fram ítarlegar, skriflegar upplýsingar um framvindu á aðlögun löggjafar að regluverkinu og framkvæmd hennar, jafnvel eftir að kafli hefur verið afgreiddur til bráðabirgða. Ef um er að ræða bráðabirgðaafgreiðslu á köflum getur framkvæmdastjórnin lagt til að aðildarviðræður verði teknar upp aftur, einkum ef Ísland hefur ekki uppfyllt mikilvægar viðmiðanir.
(Feitletrun er undirritaðs)
Skjalið með almennri afstöðu Evrópusambandsins er að finna á heimasíðu Utanríkissráðuneytisins og má sjá með því að smella hér. Sú afstaða er ekkert í sérstaklega góðu samræmi við fullyrðingar utanríkisráðherra, sem fram komu í framangreindu viðtali á Pressan.is. Því er eðlilegt að ráðherra skýri stöðu atvinnugreinarinnar í ferlinu sem hófst 16. júlí 2009.