Beint í efni

BÍ lýsa yfir undrun sinni á ummælum formanns samninganefndar við ESB

02.12.2010

Bændasamtökin hafa sent bréf til Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra og formanns samninganefndar Íslands við ESB, vegna ummæla hans í Fréttablaðsviðtali laugardaginn 27. nóv. sl. Samtökin lýsa í bréfinu undrun sinni á ummælunum en í viðtalinu lýsti hann m.a. yfir vonbrigðum sínum yfir því að samtökin taki ekki þátt í rýnifundum um landbúnaðarmál úti í Brussel í þessari viku.

Kemur fram í máli Stefáns Hauks að það þýði að styðjast verði við þá krafta sem séu í landbúnaðarráðuneytinu og það fólk í utanríkisráðuneyti sem hafi tekið þátt í ferlinu. Segir hann að það hefði verið æskilegra að hafa Bændasamtökin með enda búi þau yfir mikilli þekkingu. Hjásetu Bændasamtakana, eins og hann orðar það, geti komið niður á undirbúningi og gert stöðu Íslendinga lakari en ella.

Í bréfi BÍ til Stefáns Hauks er bent á það að umsókn um aðild að ESB og vinna að framgangi hennar sé á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnar. Stjórnvöldum beri að gæta hagsmuna allra og þar á meðal bænda. Samtökin benda á að BÍ hafi tilnefnt fulltrúa í þrjá samningahópa sem hafi nú starfað í rúmt ár. Upplýsingar um þau verkefni sem BÍ vinna að á grundvelli laga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla eða samninga hafa legið fyrir eða verið gefnar eftir því sem eftir hefur verið leitað. Þar má nefna aðkomu BÍ að svara spurningalistum ESB haustið 2009, rýnivinnu í samningahópum á undanförnum mánuðum og móttöku gesta frá ESB sem hingað hafa komið í upplýsingaöflun.

Í niðurlagi bréfsins segir að það sé grundvallarafstaða BÍ að eiga ekki beina aðild að formlegum viðræðum stjórnvalda við fulltrúa ESB þar eð Bændasamtökin vilji ekki bera ábyrgð á þeim eða árangri þeirra. Það ferli sem standi nú yfir sé alfarið á ábyrgð stjórnvalda að mati samtakanna.

Viðtal í Fréttablaðinu 27. nóv.

Bréf BÍ til Stefáns Hauks Jóhannessonar - pdf