Betri nýting vaxtarhraða í kjötframleiðslu
14.08.2010
Föstudaginn 13. ágúst fór fram meistaravörn Önnu Lóu Sveinsdóttur við Landbúnaðarháskólann en verkefni Önnu Lóu nefnist „Aðbúnaður og vöxtur nautgripa til kjötframleiðslu“. Prófdómari var dr. Torfi Jóhannesson og í meistaraprófsnefnd voru þeir Þóroddur Sveinsson lektor og Snorri Sigurðsson verkefnisstjóri, en báðir starfa við Landbúnaðarháskólann. Verkefni Önnu Lóu fólst í, eins og nafn verkefnisins gefur til kynna, úttekt á aðbúnaði og vexti nautgripa til kjötframleiðslu og komu fram í verkefnaniðurstöðum ýmsar áhugaverðar staðreyndir.
Meðfylgjandi er ágrip verkefnisins
Nautakjötsframleiðsla á Íslandi er að mestu hliðarbúgrein þar sem nýttir eru gripir, íslensk naut aðallega, sem ekki nýtast í mjólkurframleiðslu. Ávallt er reynt að hámarka arðsemi hvers grips, en til þess þarf hver gripur að ná sem mestri framlegð sem næst með því að hámarka vaxtarhraðann. Áhrifaþættir á vaxtarhraða gripa er fyrst og fremst aldur gripa við slátrun en einnig góð fóðurnýting gripa, góður fóðurstyrkur og aðbúnaður.
Í þessu verkefni var rannsakaður vaxtarhraði og aðbúnaður ungnauta hjá bændum. Þetta var gert með því að skoða sláturgögn 1.404 ungneyta sem slátrað var árið 2007 frá 141 framleiðanda, og með því að gera aðbúnaðarúttekt hjá 1.157 ungneytum á 22 kjötframleiðslubúum haustið 2008.
Aðbúnaður nautgripa hefur tekið breytingum til batnaðar á undanförnum árum en ennþá eru atriði sem mætti laga og myndu skila ávinningi fyrir bændur. Algengast er að ungneyti séu í stíum með steyptum bitagólfum frá lokum mjólkurskeiðs til slátursdags. Meðalstía er með 5 til 8 gripi, með að jafnaði 2,3 m2 á grip. Á úttektarbúum var ekki algengt að ala gripi til kjötframleiðslu í stíum með sérstöku leguplássi.
Gripir hafa flestir frjálsan (ótakmarkaðan) aðgang að gróffóðri og algengast er að gefa viðbótarfóður (kjarnfóður og/eða korn) við upphaf vaxtarskeiðs og svo aftur í lokaeldi. Flestir gripir drekka vatn úr sogventlum en mikið skorti á að vatnsrennsli væri nægjanlegt. Gæði andrúmslofts í fjósum er rétt yfir meðallagi, þ.e. áberandi útihúsailmur án þess að valda óþægindum, og algengast er að notað sé loftræstikerfi með undirþrýstingi. Þegar úttektaratriði verkefnisins eru borin saman við reglur um aðbúnað gripa þá er ekkert úttektarbúa sem stóðst viðmið núgildandi reglugerð fullkomlega.
Meðalvaxtarhraði ungneyta árið 2007 var 306 g fall/dag sem er umtalsverð aukning frá því þetta var rannsakað síðast árið 1996. Sömuleiðis hefur meðalaldur við slátrun hækkað úr 735 dögum í 755 daga og flokkun falla batnað umtalsvert.
Niðurstöðurnar sýna því að bændur eru farnir að nýta betur en áður vaxtargetu ungneyta í kjötframleiðslu sem fyrst og fremst má rekja til betri fóðrunar en einnig eru vísbendingar um að eldisaðstaðan hafi batnað.