Betra júgurheilbrigði næst með blandaðri meðferð
02.07.2016
Fyrir nokkrum árum kom fram áhugaverð niðurstaða í Danmörku þess efnis að þegar kýr eru meðhöndlaðar í geldstöðu, með langtímavirkandi geldstöðulyfjum, og samtímis meðhöndlaðar með spenakítti þá næst bestur árangur meðhöndlunarinnar og fleiri kýr ná sér að fullu. Þessi samþætta aðferð hefur ekki náð mikilli útbreiðslu þrátt fyrir þessa vitneskju enda var hún byggð á gögnum úr danska skýrsluhaldinu en ekki á niðurstöðum úr þar til gerðri rannsókn.
Nú hefur svo verið gerð rannsókn í Ástralíu þar sem einmitt þessi áhrif eru skoðuð við stýrð skilyrði, en greint var frá niðurstöðunum í fagtímaritinu Journal of Dairy Science í júní. Tilraunin náði til 2.200 kúa á átta kúabúum og voru þær annað hvort meðhöndlaðar með geldstöðulyfjum með og án spenakíttis og var hver kýr meðhöndluð með ólíkum hætti þ.e. hver júgurhluti meðhöndlaður ólíkt. Frumutala hvers júgurhluta var greind fyrir geldstöðuna, um burðinn og svo reglulega eftir því sem leið á mjaltaskeiðið.
Samandregið benda niðurstöðurnar til þess að séu kýr með meira en 200.000 í frumutölu við geldstöðu þá eigi að meðhöndla þær með geldstöðulyfjum, að sjálfsögðu að undangenginni bakteríugreiningu, og svo á að loka spenanum með spenakítti. Þá aukast líkurnar á því að það takist að komast að fullu fyrir vandamálið og líkurnar á því að kýrin veikist á ný fyrstu 60 dagana eftir burð eru minni/SS.