
Besta steikin árið 2017 frá Póllandi!
14.07.2017
Nýverið var haldið hið magnaða heimsmeistaramót „World Steak Challenge 2017“ sem kalla mætti heimsmeistaramót steikanna 2017 og er þetta í þriðja sinn sem þessi keppni er haldin. Keppni þessi var haldin í London og fór þannig fram að ýmsir kjötvinnsluaðilar sendu safaríkar nautakjötssteikur til keppni sem voru svo steiktar og eðlilega snæddar. Alls sendu 17 lönd inn nautakjöt í keppnina og voru steikurnar að sjálfsögðu metnar af fagfólki.
Þegar upp var staðið var það pólsk sirloin steik sem stóð uppi sem sigurvegari en var frá Limósín blendingi sem sem alinn var á korni. Nautinu var slátrað 29 mánaða gömlu og kjötið látið hanga í 14 daga hjá vinnslunni F&M Frackowiak. Mikill heiður fylgir sigrinum í þessari keppni og að sögn fulltrúa pólsku sendinefndarinnar undirstrikar sigurinn þá miklu vinnu sem hefur verið lögð í kjötrækt og kjötvinnslu í Póllandi undanfarin ár/SS.