Beint í efni

Berglandmilch setur hömlur á innvigtun mjólkur

19.03.2018

Stærsta afurðafélag Austurríkis, Berglandmilch, hefur átt erfitt með að fóta sig á evrópska mjólkurmarkaðinum eftir að framleiðslustýringin var lögð niður og ekki ráðið við þær breytingar sem fylgdu frjálsri framleiðslu. Nú hefur stjórn félagsins því tekið þá ákvörðun að reyna að draga úr innvigtuninni með því að borga hærra verð fyrir mjólkina sé magn kúabúsins minna en það var fyrir ári síðan.

Þannig fá þeir kúabændur, sem leggja inn 90-99% af mjólkurmagni síðasta árs, 10 evrusentum meira, eða sem nemur um 12,3 krónum, en gildandi afurðastöðvaverð fyrir hvert innvegið kíló mjólkur. Þá lenda þeir sem framleiða meira en fyrir ári síðan í því að fá sama frádrátt frá afurðastöðvaverðinu, þó má framleiðslan vera allt að 3% meiri en í fyrra áður en skerðing afurðastöðvaverðsins hefst. Til þess að byrja með mun þetta nýja stýrikerfi Berglandmilch vera í gildi fyrstu 6 mánuði þessa árs/SS.