Beint í efni

Beit mjólkurkúa og notkun mjaltaþjóna

22.06.2013

Fjölmargir kúabændur hafa náð afar góðum árangri með beit mjólkurkúa samhliða notkun á mjaltaþjónum og hefur mjaltaþjónafyrirtækið Lely tekið saman reynslu bænda (erlendis) af beit, beitarskipulagi og hönnun fjósa svo allt gangi nú vel þegar kúnum er beitt. Reynsla þeirra sýnir að svo vel eigi að takast til þurfa bændur að fylgja nokkrum grundvallar reglum.

 

Allir bændur sem nota mjaltaþjóna þekkja vel tilgang þess að gefa kúm kjarnfóður í mjaltaþjóninum til þess að „lokka“ þær í mjaltir. Sömu aðferð nýta sumir bændur sem beita kúm með góðum árangri, en í stað þess að gefa kúnum kjarnfóður eru þær lokkaðar í mjaltir á grundvelli þess að í kjölfar mjaltanna fá þær aðgengi að fersku grasi. Til þess að þetta sé hægt, þarf aðgengi kúa að grasi að vera takmörkuð og miða að því að daglega fái þær aðgengi að nýju svæði (færsla á streng). Svo vel eigi að vera þurfa bændur að nota sjálfvirk flokkunarhlið við útgang fjóss sem getur þá stjórnað ferðum kúnna.

 

Þegar ferskt gras er notað sem hvati fyrir mjaltasókn kúa reynir hraustlega á beitarskipulag búsins. Reynslan sýnir að með því að hafa bara aðgengi að túni þá er það ekki nægur hvati fyrir kýrnar. Þess í stað þarf að bjóða kúnum nýtt beitarsvæði með 8-12 tíma millibili, sem virðist vera nóg til þess að halda áhuga þeirra nægum. Þó ber að varast að bjóða þeim upp á of mikið magn af grasi því það eykur á leti þeirra.

 

Þá er reynslan einnig sú að séu gönguslóðar kúnna góðir geta þær hæglega lagt á sig allt að 1 kílómetra göngu til og frá fjósi. Nánar má fræðast um beitarskipulag með mjaltaþjónum á enska fræðslusíðu Lely með því að smella hér/SS.