Beint í efni

Básafjósum fækkar ört

28.03.2008

Í gær kom út skýrsla sem Landbúnaðarháskóli Íslands vann fyrir Landssamband kúabænda. I skýrslunni er fjallað um þróun fjósgerða og mjaltatækni á Íslandi síðustu ár. Þar kemur fram að á síðustu fjórum árum hefur orðið mikil fækkun básafjósa – eða úr 86,2% í 70,1%. Á sama tíma hefur hlutfall legubásafjósa, þ.e. fjósa þar sem kýrnar ganga um lausar, hækkað umtalsvert eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.

Fjósgerðir og mjaltatækni, þróun í fjölda á landsvísu.

Árið 2005

Árið 2007

Fjósgerðir og mjaltatækni

Fjöldi

Fjöldi

Breyting

Básafjós með fötukerfi

16

13

-18,8%

Básafjós með rörmjaltakerfi

487

422

-13,3%

Básafjós með mjaltabás

85

69

-18,8%

Legubásafjós með mjaltabás

133

140

5,3%

Legubásafjós með mjaltaþjóni

39

74

89,7%

Annað

2

2

0,0%

Samtals

762

720

-5,5%

                                              

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að legubásafjós með mjaltaþjónum eru að jafnaði með hæstu meðalnytina yfir landið og er það töluverð breyting frá árinu 2005, er básafjós með mjaltabás voru afurðamestu bú landsins. Næst afurðahæstu búin eru hefðbundin legubásafjós. Benda þessar niðurstöður til þess að mjaltaþjónabúin hafi náð þeirri afurðaaukningu sem búast má við þegar um tíðari mjaltir er að ræða en tvisvar á dag.

 

Fram kemur í skýrslunni að legubásafjós með mjaltaþjónum eru stærst en þar eru að meðaltali 59,9 árskýr. Er sú bústærð vafalítið enn nokkuð undir þeim mögulega árskúafjölda sem þessi fjós geta borið, enda flest mjaltaþjónafjós hönnuð fyrir 60-70 kýr.

 

Þrátt fyrir tiltölulega öra þróun varðandi breytingar á aðbúnaði gripa hér á landi undanfarin ár, þá er ljóst að enn eiga eftir að verða töluverðar breytingar á framleiðsluaðstæðum. Þannig má t.a.m. áætla að þrátt fyrir að um 45% íslenskra kúa séu í legubásafjósum og meðalnyt þeirra nokkuð hærri en annarra kúa, þá fer enn um 50% mjólkurframleiðslunnar hérlendis fram í eldri fjósum þar sem vitað er að vinnuaðstaðan er oftar en ekki afar erfið fyrir kúabændur.

 

Nánari uppl. gefur Snorri Sigurðsson í síma 843 5341.

 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.