Bannað að skjóta niður dróna!
15.04.2016
Þau eru all nokkuð ólík vandamálin sem kúabændur hér á landi búa við í samanburði við kúabændur í mörgum öðrum löndum en allsstaðar eru auðvitað einhver vandamál. Lausnirnar eru einnig ólíkar, jafnvel þegar rætt er um sama vandamálið. Í liðinni viku kom fram grein í bandaríska vef-fagtímaritinu Progressive Dairy en þar koma reglulega fram gagnlegar upplýsingar fyrir bandaríska kúabændur. Í þessari grein var fjallað um réttindi bænda til þess að verjast því að fylgst væri með þeim með drónum og snérist innihald greinarinnar að því hvort þeim væri heimilt að skjóta þessa dróna niður!
Frekar spaugilegt viðfangsefni en tilfellið er að í Bandaríkjunum hafa allskonar aðilar orðið sér úti um dróna og senda þá á loft til þess eins að fylgjast með öðrum og taka upp á myndbönd af bæði fólki og fénaði. Þetta fer auðvitað fyrir brjóstið á flestum og sér í lagi byssuglöðum Bandaríkjamönnum, sem vilja fyrst og fremst verja rétt sinn samkvæmt stjórnarskránni sem svo oft er vitnað til. Í stuttu máli sagt var ráðgjöfin til kúabændanna sú að sé dróni á flugi yfir landi sem hann á, þá á bóndinn engan rétt! Loftrýmið er sameign allra landsmanna og til þess að hnykkja á þessu skrifaði ráðgjafinn sérstaklega „þú mátt alls ekki skjóta niður dróna, jafnvel þó svo þú vitir að hann sé í eigu einhverra umhverfishópa. Samkvæmt bandarískum lögum er um flugfar að ræða og því gilda alríkislögin og svarar það því til að skjóta niður flugvél í augum laganna“. Já það er ekki einfalt að stunda kúabúskap nú til dags/SS.