Beint í efni

Bannað að nota vörumerkið ”Fair milk”

19.05.2011

Stór hópur kúabænda í Austurríki, Bayern héraðinu og nærliggjandi svæðum hefur á undanförnum misserum markaðssett mjólk sína með vörumerkinu ”Fair milk”. Merkingin á að gefa neytendum tryggingu fyrir því að kúabóndinn fái sanngjarnt verð fyrir hrámjólkina sína en vissulega getur verið erfitt að meta hvað er sanngjarnt. Í samstarfi við Samtök evrópskra kúabænda var ákveðið að á bak við vörumerkið fælust greiðslur til kúabænda sem næmu amk. 40 evrusentum sem er verulega hærra verð en almennt gerist. Neytendur áttu því að vera öruggir á því að með því að kaupa svona mjólk fengi frumframleiðandinn eðilegt verð fyrir afurð sína. Þessi mjólk kostar eðlilega einnig mun meira en almennt gerist í þessum hluta Evrópu eða 1,09 Evrur (179 íkr).

 

Nú hefur dómstóll í Bayern hinsvegar gripið inn í þessa ágætu tilraun kúabændanna til þess að fá hærra verð fyrir mjólkina og bannað markaðssetningu þessa vörumerkis þar sem kærandinn vildi meina að merkið væri villandi. Einungis hluti söluverðsins væri reiknað út eftir ”sanngjörnum” hætti (þ.e. til kúabændanna) en hinn hlutinn eftir flóknari aðferðum. Þetta væri ekki sambærilegt við önnur vörumerki sem markaðssett eru sem ”Sanngjörn” eða ”Fair”.

 

Þeir sem vilja kynna sér nánar þetta áhugaverða vörumerki geta lesið sér nánar til á heimasíðunni: www.fairmilk.org /SS.