Beint í efni

Bankar eiga ekki að vera í búskap!

27.03.2010

Þingfundur stendur nú yfir á aðalfundi LK. Rétt í þessu samþykkti fundurinn harðorða ályktun vegna seinagangs lánastofnana við úrlausnir á skuldavanda kúabænda, sem og vegna þeirra úrlausna bankanna að yfirtaka rekstur búa og reka í samkeppni við bændur. Ályktunin fylgir hér með í heild:

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, gagnrýnir harðlega seinagang lánastofnana við úrlausnir á skuldavanda kúabænda. Beita þarf í sem ríkustum mæli almennum skuldaleiðréttingum með það markmið að allir sitji við sama borð og að þau bú sem voru rekstrarhæf fyrir bankahrun eigi sér áframhaldandi rekstrargrundvöll.

               Það er með öllu óviðunandi að rekstraraðilar séu mánuðum saman í óvissu um stöðu búreksturs síns. Því er mikilvægt að þau bú sem eru í óvissuástandi varðandi áframhaldandi rekstur fái lausn sinna mála sem fyrst, hvort heldur sem niðurstaðan verði sú að sértækum aðgerðum verði beitt til að koma skuldastöðunni í viðráðanlegt form, eða sú að búreksturinn geti ekki staðið undir skuldunum.

               Afar mikilvægt er að skekkja ekki samkeppnisstöðu bænda í milli við úrlausnir einstakra mála. Þá er ólíðandi að bankarnir taki yfir rekstur búa og reki í samkeppni við bændur. Fundurinn bendir á að við skuldbreytingu erlendra lána er nauðsynlegt að hafa fyrirvara vegna hugsanlegs ólögmætis þeirra. Þá hvetur fundurinn bændur, sem standa í samningum við bankana, til að fara vel yfir þá samninga sem í boði eru og leita sér aðstoðar búnaðarsambanda eða annara hæfra aðila.