
Bandarískir kúabændur reyna að nýta sér Brexit
26.07.2017
Það ríkir mikil óvissa í Bretlandi þegar horft er til hugsanlegra áhrifa af Brexit á þarlendan landbúnað. Margir hafa reynt að nýta sér það ástand og boðist til að gera afar góða samninga við Bretland og þar á meðal eru Bandaríkin. Bresku kúabændurnir hafa verulegar áhyggjur af mögulegum innflutningi á nautakjöti til landsins frá Bandaríkjunum enda er þar leyfð notkun á hormónum auk þess sem nautgripir eru oft aldir í Bandaríkjunum við heldur nöturlegar aðstæður.
Í upphafi samningaviðræðnanna sagði landbúnaðarráðherra Bretlands, George Eustice, að það yrði með engum hætti slakað á framleiðslukröfum varðandi það nautakjöt sem flutt yrði til landsins en síðar hefur komið annað hljóð í strokkinn. Nú hefur verið haft eftir honum að neytendur eigi að ráða því hvað þeir kaupi og túlka forsvarsmenn bænda orð hans þannig að verið sé að opna fyrir þann möguleika að slakað verði á kröfunum til innflutts kjöts/SS.