
Bandarísk mjólkurframleiðsla háð styrkjum
14.02.2018
Undanfarin ár hafa verið bandarískum kúabúum erfið og þrátt fyrir aukin umsvif og útflutning, hefur staða kúabúanna í Bandaríkjunum verið viðkvæm. Nýlega kom út skýrsla um stuðningskerfið í Bandaríkjunum og þrátt fyrir að margir haldi annað þá er opinber stuðningur við mjólkurframleiðslu í landinu verulegur. Árið 2015 námu beinir og óbeinir styrkir til þarlendrar mjólkurframleiðslu alls 22,2 milljörðum bandaríkjadala eða sem svarar til svimandi 2.200 milljarða íslenskra króna!
Þetta kom fram á ráðstefnu kúabænda í Kanada, en löndin tvö hafa átt í deilum og hafa bandarísk yfirvöld haldið því fram að kanadísk yfirvöld standi í vegi fyrir innflutningi bandarískra mjólkurvara með óeðlilegum stuðningi við kanadíska mjólkurframleiðslu. Kanadískir kúabændur hafa á móti haldið því fram að mjólkurframleiðsla í Bandaríkjunum fái einnig verulegan stuðning og ef marka má niðurstöður þessarar skýrslu, hafa þeir haft rétt fyrir sér. Þess ber reyndar að geta að skýrsluhöfundarnir fengu styrk frá félagi kanadískra kúabænda til að vinna umrædda skýrslu um stuðning við bandaríska mjólkurframleiðslu.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að stuðningur bandarískra stjórnvalda við kúabúskap í landinu sé að raungildi umtalsvert meiri en t.d. Evrópusambandið styrkir kúabændur í löndum Evrópusambandins/SS.