
Bandaríkin taka franskt nautakjöt í sátt
25.01.2017
13. janúar ákváðu bandarísk stjórnvöld að fella niður bann gegn innflutningi á nautakjöti frá Frakklandi en bannið var sett á fyrir 19 árum, vegna ótta við að kúariða gæti borist til Bandaríkjanna. Frakkland er einungis fjórða land Evrópusambandsins sem hefur fengið heimild til innflutnings á nautakjöti til Bandaríkjanna, eftir að lokað var á allan innflutning frá Evrópusambandinu á sínum tíma. Hin þrjú löndin eru Litháen, Írland og Holland. Önnur lönd eru enn úti í kuldanum og meta Bandarísk stjórnvöld það svo að ekki sé að fullu tryggt að kjöt frá öðrum löndum Evrópusambandsins sé í lagi.
Mörgum hér á landi kann að koma þessi aftaða bandarískra stjórnvalda nokkuð á óvart, enda heimilt að flytja hingað til lands nautakjöt frá öllum löndum Evrópusambandsins. Samkvæmt fréttaskýringu GlobalMeat á málinu segir að skýringin á því hve erfitt sé að fá innflutningsheimild til Bandaríkjanna felist í umfangsmiklum öryggis- og gæðakröfum bandarískra stjórnvalda til innflutts kjöts/SS.