
Bandaríkin: stór samruni framundan?
13.07.2019
Stærsta samvinnufélag kúabænda í heimi, Dairy Farmers of America (DFA), hefur gefið út að félagið sé að skoða samruna við félagið St. Albans Cooperative Creamery (SACC). Að SACC standa 360 kúabú í norðausturhluta Bandaríkjanna en stjórn félagins telur það of smátt til lengri tíma litið og þurfi skjól af stóru afurðafélagi. Raunar hefur það skjól verið til staðar í nærri 15 ár enda hefur SACC verið félagi í DFA í rúm 15 ár. Þrátt fyrir slíka aðild, vill stjórn SACC að kúabúin verði aðilar beint að DFA í stað þess að vera það í gegnum SACC.
DFA er lang stærsta afurðafélag í heimi, mælt á grunni innvigtunar mjólkur, og stjórn þess horfir jákvætt til þessa samruna. Félagið er í dag í eigu rúmlega 14.500 kúabænda á rúmlega 8.500 kúabúum í 48 fylkjum Bandaríkjanna. Eigendur þess framleiða árlega rúmlega 29 milljarða lítra af mjólk sem gera tæplega 3,5 milljónir lítra á hvert bú að jafnaði/SS.