Bandaríkin setja reglur um flutning nautgripa
26.08.2011
Bandaríska landbúnaðarráðuneytið hefur nú sent út til umsagnar nýjar reglur um flutning á nautgripum á milli fylkja landsins. Er þetta gert að fyrirmynd þeirra kerfa sem eru í notkun í Evrópu og þykja heppileg gagnvart mögulegu inngripi yfirvalda s.s. vegna alvarlegra smitsjúkdóma.
Hingað til hafa ekki verið til upplýsingar um ferðir gripa innan landsins og þegar upp hafa komið sjúkdómar sem ástæða hefur verið til að rekja til uppruna síns, hefur það oft gengið afar erfiðlega. Afar erfitt hefur verið að koma þessum reglum á enda ljóst að til þess að hafa yfirsýn yfir flutninga gripa þá þarf að hafa þá skráða og halda skrám um ferðir þeirra. Slíkt fer mikið fyrir brjóstið á hinum hægrisinnuðu bandarísku kúabændum og hefur mætt gagnrýni. Tom Vilsack, landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna,telur þó að embættismönnum hafi tekist að finna leið sem er ekki svo íþyngjandi en engu að síður krefst hún skráningar á gripum en gefur hverju fylki möguleika á að aðlaga regluverkið að héraðsbundnum aðstæðum.
Sérstök áhersla er lögð á það að skráningarkerfið verið bændum ekki kostnaðarsamt og því verða t.d. samþykkt hverskonar eyrnarmerki sem aðgreina gripi og ekki krafist opinberra merkja. Ennfremur gilda sérstakar reglur um búsmala frá búum sem flytja stórar hjarðir í einu og verður þar nóg að nota mörk búsins á alla gripi s.s. brennimerki, húðflúrsmerki eða annað slíkt/SS.