Beint í efni

Bandaríkin kaupa 5 þúsund tonn af ostum

30.08.2016

Það má vel vera að margir telji að bændur í Bandaríkjunum séu lítið styrktir en þegar þeirra mál eru skoðuð í kjölinn kemur margt áhugavert í ljós. T.d. hefur alríkisstjórnin ítrekað haldið uppi eftirspurn með mjólkurvörum, og þar með afurðaverði til bænda, með því að kaupa reglulega upp mikið magn mjólkurvara. Þetta flokkast ekki sem beingreiðslur en sem mataraðstoð og felst skýrining í því að matvörurnar eru nýttar til þess að gefa þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

 

Nýverið ákvað bandaríska landbúnaðarráðuneytið að kaupa 5 þúsund tonn af ostum og verða þeir gefnir til ýmissa stofnana sem gefa mat, víða um Bandaríkin. Áður hefur komið fram að birgðastaða á ostum í Bandaríkjunum hefur ekki verið meiri í þrjá áratugi og því var ljóst að grípa þurfti til einhverra aðgerða. Þó svo að fimm þúsund tonn sé mikið magn á íslenskan mælikvarða er þetta þó ekki nema um 1% af bandaríska ostafjallinu svo líklega verður gripið til frekari aðgerða á næstunni/SS.