Bændur vilja áfram opinbera verðlagningu á mjólkurafurðum
11.06.2015
Miðstjórnir ASÍ og BSRB hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þess efnis, að samtökin hyggist ekki tilnefna fulltrúa til setu í verðlagsnefnd búvara í framtíðinni. Landssamband kúabænda vill við þetta tækifæri þakka samtökunum fyrir samstarfið á vettvangi nefndarinnar undanfarna áratugi; samstarf sem skilað hefur miklum ávinningi til bænda og neytenda eins og staðfest er í nýjum skýrslum Ríkisendurskoðunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Í yfirlýsingu samtakanna segir að „Aðalfundur Landssambands kúabænda í mars á þessu ári samþykkti ályktanir þess efnis að opinberri verðlagningu á mjólkurafurðum verði hætt“. Hér er ekki alveg rétt farið með, þar sem í ályktun aðalfundar LK 2015 um áherslur og samningsmarkmið búvörusamninga segir að „Opinberri verðlagningu til bænda verði hætt, en opinber verðlagning verði áfram til staðar á vinnslu og/eða heildsölustigi, með það markmið að auka fjölbreytni, en tryggja jafnframt hagsmuni neytenda og bænda“.
Það eru Landssambandi kúabænda vonbrigði að launþegahreyfingin sjái sér ekki fært að vinna að áframhaldandi þróun greinarinnar til aukinnar skilvirkni, til hagsbóta fyrir neytendur og bændur, eins og vilji ályktunar aðalfundar Landssambands kúabænda stendur til./BHB