Bændur segja sín lán ólögleg
20.09.2010
Eftirfarandi fréttaskýring Egils Ólafssonar birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag.
Bændur og sjómenn ætla að láta á það reyna hvort lán með gengistryggingu sem þeir tóku fyrir hrun verði dæmd ólögleg. Óljóst er hvernig bankarnir ætla að taka á þessum lánum, en þeir horfa m.a. til yfirlýsinga Árna Páls Árnasonar efnahags- og viðskiptaráðherra um að frumvarp sem hann hefur boðað eigi bara að ná til einstaklinga en ekki fyrirtækja. Talsmenn bænda og sjómanna leggja áherslu á að það sem skipti máli sé hvort lánið sé löglegt eða ólöglegt en ekki hver sé greiðandi lánsins.
I öllum umræðum um aðgerðir stjórnvalda vegna skuldaaðlögunar hafa einyrkjar eins og bændur, smábátasjómenn og fleiri, verið hálf utanveltu. Upphaflega var ekki gert ráð fyrir í frumvarpi um greiðsluaðlögun að lögin næðu til þessa hóps. Því var breytt í meðförum þingnefndar. Þá vildu sumar lánastofnanir ekki að ákvörðun um að lántakendur greiddu 5.000 kr. í afborgun af hverri milljón næðu til einyrkja, en féllust síðar á það.
Bændur setja allt sitt að veði
Mjög fátítt er orðið að einyrkjar séu með rekstur á eigin kennitölu. Fjölmennar starfsstéttir eins og bændur, smábátasjómenn, iðnaðarmenn og fleiri hafa stofnað einkahlutafélög í kringum reksturinn. Bændur eru hins vegar í þeirri stöðu að hafa þurft að veðsetja ekki bara reksturinn, heldur líka jörðina og íbúðarhúsið. Báturinn og kvótinn er settur að veði fyrir lánum smábátasjómanna. Þær skuldaleiðréttingar sem bændum hefur verið boðið upp á eru útfærsla þeim leiðum sem einstaklingum stendur til boða. Engu að síður eru lán bænda alltaf skilgreind
sem fyrirtækjalán. I fréttatilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu sem birt var eftir dóm Hæstaréttar segir: „í þágu sanngirni mun löggjöfin tryggja að þessi niðurstaða Hæstaréttar nái til allra
lána vegna bíla- og húsnæðiskaupa sem tengd eru gengi erlendra gjaldmiðla. Mun lagasetningin taka til þeirra flokka lána sem talið er að hafi byggt á ólögmætri gengisbindingu.“ Jóhanna Lind Elíasdóttir, rekstrarráðunautur hjá Bændasamtökunum, segir þessa yfirlýsingu vekja upp fleiri spurningar en hún svarar. Ekki komi fram hvaða lán fari í þennan flokk lána. „Að mínu mati gengur ekki að segja að einhver lánasamningur sé ólöglegur vegna þess að það er launamaður sem tekur lánið en að hann sé löglegur ef það er fyrirtæki sem tekur lánið eða maður sem er með tekjur í erlendri mynt. Annaðhvort er þessi lánasamningur löglegur eða ólöglegur. Það getur ekki verið að það skipti máli hver það er sem tekur við láninu.“ Bankarnir hafa ekki viljað kveða upp úr um það að lán sem bændur tóku með gengistryggingu séu ólögleg þrátt fyrir dóm Hæstaréttar frá 16. júní. A.m.k. eitt mál þar sem Arion banki og bóndi deila um lögmæti gengistryggingar er komið til héraðsdóms. Bóndinn skuldbreytti verðtryggðum lánum í íslenskum krónum í gengistryggt lán stuttu fyrir hrun. Orðið „gengistryggt lán“ kemur fyrir
í lánasamningi og allar fjárhæðir eru í íslenskum krónum. Jóhanna segist vonast eftir að afstaða bankanna breytist eftir þennan nýja dóm Hæstaréttar. Hún segir mikilvægt að hafa í huga að bændur séu með allt sitt undir þessum málalið. Ef ekki sé hægt að leysa skuldavanda þeirra séu þeir ekki aðeins að tapa búum sínum og jörðum. Þeir séu líka að tapa atvinnu sinni og heimilum. Hjón standi þá uppi án framfærslu og neyðist til að finna sér nýtt húsnæði og annars konar atvinnu, oft í öðru sveitarfélagi.
Afstaða bankanna er ekki skýr
Hermann Björnsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, sagði að bankinn væri ekki búinn að taka afstöðu til allra álitamála varðandi þessi umdeildu lán. Markmið bankans væri að greiða eins hratt og hægt væri úr málum einstaklinga og fyrirtækja. Hermann sagði að viðskiptaráðherra væri fyrst og fremst að boða úrræði fyrir einstaklinga. Arion banki vonast til að fá að veita umsögn um það frumvarp sem hefur verið boðað að komi fram á þingi í næsta mánuði. „Það mun nokkur tími líða þangað til þetta frumvarp verður að lögum og við hvetjum okkar viðskiptavini að halda sig við að greiða 5.000 kr. af hverri milljón þangað til frumvarpið verður að lögum.“