Bændur og búvörulög
23.08.2010
Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda ritar grein í Morgunblaðið í dag sem ber heitið „Bændur og búvörulög“. Fer hún í heild sinni hér á eftir:
Síðustu vikur hefur mikið verið rætt um frumvarp Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til breytinga á búvörulögum. Því miður hefur sú umræða þvælst inn á talsverðar villigötur og oft fjarri því að vera upplýsandi um raunveruleika málsins. En hvernig horfir þetta mál við bændum?
Engin lög án viðurlaga
Í gildi er samningur milli ríkis og bænda um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Samkvæmt honum er framleiðslukvóta úthlutað til bænda sem ætlað er að tryggja jafnvægi milli framleiðslu og sölu á innanlandsmarkaði. Þar með skal öll mjólk sem framleidd er utan kvóta flutt á erlendan markað. Þetta fyrirkomulag byggir á ákvæðum búvörulaga sem verið hafa í gildi frá árinu 1993. Samkvæmt þeim má hver sem er setja á laggirnar kúabú, kaupa kýr og framleiðslukvóta og framleiða fyrir innanlandsmarkað. Einnig er unnt að sleppa því að kaupa kvóta og framleiða til útflutnings. Þannig standa allir jafnfætis gagnvart lögum hvað varðar framleiðslu mjólkur. Eins er öllum heimilt, án takmarkana, að stofna mjólkurvinnslu og selja afurðir hér hvort heldur þær eru framleiddar úr mjólk innan kvóta fyrir innanlandsmarkað, eða úr umframmjólk fyrir erlendan markað. Hinsvegar er mjólkursamlögum óheimilt að taka við mjólk frá framleiðendum umfram kvóta og markaðssetja afurðir úr henni á innanlandsmarkaði. Með frumvarpinu er einungis verið að leggja viðurlög á þá sem fara út fyrir ramma laganna. Þetta fyrirkomulag er fyllilega sambærilegt við það sem gerist í nágrannalöndunum; í Noregi og öllum löndum Evrópusambandsins.
Ýtt undir nýsköpun
Einu raunverulegu breytingarnar eru að með frumvarpinu er ýtt undir nýsköpun. Samkvæmt því er bændum í fyrsta skipti heimilt að framleiða mjólkurvörur úr sem samsvarar 10 þúsund lítrum af mjólk umfram kvóta. Þessi breyting kemur til móts við alla þá sem vilja byggja upp lítil nýsköpunarfyrirtæki og selja afurðir sínar beint frá býli. Líklegt er að þessi heimild verði aukin í 15 þúsund lítra, samkvæmt tillögu landbúnaðarnefndar Alþingis.
Spila eftir reglunum
Hundruð kúabænda hafa á undangengnum árum skuldsett sig til að kaupa framleiðslukvóta. Heildarskuldir kúabænda vegna kvótakaupa nema nú 14 til 16 milljörðum króna. Það er því ósanngjarnt gagnvart bændum, sem hafa farið að reglum, að gera nokkuð sem stefnir kvótakerfinu í bráðan voða án nokkurrar aðlögunar. Það myndi stefna fjárhag þessara bænda og fjölskyldna þeirra í mikla hættu og í versta falli kollvarpa þeirri gróskumiklu mjólkurframleiðslu sem byggð hefur verið upp í landinu.
Fjölbreytt úrval – hagstætt verð
Opinber verðlagsnefnd, sem í sitja fulltrúar ríkisins, ASÍ og BSRB ásamt fulltrúum bænda og mjólkuriðnaðarins, ákveður mjólkurverð til bænda. Þar standa allar mjólkurvinnslur jafnar gagnvart öflun hráefnis og hafa því bændur ekki sjálfdæmi um verðlagningu á hráefninu. Augljóst er að útgefið lágmarksverð til bænda heldur ekki án þess að jöfnuður sé á framboði og eftirspurn. Því er kvótakerfið forsenda þessarar verðlagningar. Sama nefnd verðleggur einnig heilsöluverð helstu vöruflokka mjólkurafurða, sem stærsti hluti mjólkurframleiðslunnar rennur jafnframt til. Vinnslufyrirtækin hafa því ekki heldur sjálfdæmi um sína verðlagningu. Athygli vekur, að á síðustu fimm árum hefur verð á mjólkurvörum lækkað að raungildi um 16% undir þessu kerfi. Eins kemur fram í verðkönnun sem Hagstofa Íslands birti 29. júní 2010 að verð á mjólkurvörum hérlendis er 9% lægra en meðaltali í Evrópu. Hér á landi er einnig óvenju fjölbreytt úrval mjólkurvara, enda er neysla mjólkurafurða mjög mikil, en Íslendingar neyta um 60% meira af mjólkurafurðum en að jafnaði í Evrópu. Því væri ósanngjarnt að segja að þetta fyrirkomulag hafi reynst íslenskum neytendum illa.
Aðlögun nauðsynleg
Evrópusambandið hyggst leggja kvótakerfið af, a.m.k. í núverandi mynd eftir fimm ár. Gert er ráð fyrir að við taki svipað eða annað kerfi til þess að stjórna framleiðslunni. Þær tillögur sem fram eru komnar, gera t.d. ráð fyrir því að samtök kúabænda geti samið um mjólkurverð fyrir hönd umbjóðenda sinna. Það er hins vegar lykilatriði að allar breytingar hafi nægan aðdraganda. Umræðan í aðildarlöndum ESB um afnám kvótakerfis í mjólkurframleiðslu hófst fyrir 12-14 árum síðan. Verði kvótakerfið lagt af í löndum Evrópusambandsins eða breytt þann 1. apríl 2015, munu bændur hafa haft tæpa tvo áratugi til að búa sig undir nýtt framleiðsluumhverfi. Núverandi samningur ríkis og bænda um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunar rennur út 31. desember 2014. Ekki hafa verið gefin út nein fyrirheit um hvað þá taki við. Það er hinsvegar fráleitt að ætla íslenskum kúabændum óstöðugra lagaumhverfi eða minni aðlögun að breyttu framleiðsluskipulagi en kollegum þeirra í nágrannalöndunum.