Beint í efni

Bændur og aðrir gestir landbúnaðarsýningar fjölmenna í Laugardalinn

13.10.2018

Sýningin „Íslenskur landbúnaður 2018“ stendur nú yfir í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, opnaði sýninguna formlega um hádegisbil á föstudag og strax streymdi mikill mannfjöldi á svæðið. Áberandi var hvað margir bændur voru mættir í bæinn til þess að skoða sýninguna.

Bændasamtökin eru með stóran bás á svæðinu og bjóða alla gesti velkomna þangað. Aðildarfélög BÍ eru sum hver með bása í Laugardalshöllinni en mörg þeirra koma að bás BÍ með ýmsar kynningar. Kjötgreinarnir bjóða allar upp á grillkjöt um helgina og nýr veitingastaður á Hótel Sögu, Mímir, gefur fólki að bragða af sínum vörum – bæði í föstu og fljótandi formi. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er á næsta bás við BÍ og þar taka ráðunautar vel á móti bændum og öðrum áhugasömum um landsins gagn og nauðsynjar.

Tímarit Bændablaðsins þjónar sem sýningarskrá en þar er hægt að fræðast um mörg þeirra fyrirtækja sem eru á sýningunni auk þess sem dagskrá og kort af svæðinu er þar að finna.

Í dag verða haldnir stuttir fyrirlestrar um landbúnað í hliðarsal við inngang Laugardalshallarinnar. Þar verður m.e. fjallað um lífræna ræktun, nýja holdanautastofninn og Landbúnaðarklasann.


Daniela Renis, Sindri Sigurgeirsson og Ingibjörg Ólafsdóttir.

 


Jóna Björg Hlöðversdóttir, Svavar Halldórsson og Vilmundur Hansen.

 


Ólafur M. Jóhannesson sýningarstjóri og Berglind Hilmarsdóttir bóndi á Núpi.


Sigurður Már Harðarson blaðamaður setur frétt á bbl.is undir vökulu auga Ed Hill sem kom alla leið frá Ohio á sýninguna.


Bás BÍ er hannaður eins og hlaða. Þemað er töðugjöld þar sem glaumur og gleði er ríkjandi!