Beint í efni

Bændur kynna vörur og þjónustu á Íslandsperlum

19.05.2011

Helgina 21.-22. maí verður ferðasýningin Íslandsperlur haldin í Perlunni. Bændur í Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og Opnum landbúnaði verða með bás á sýningunni og kynna sínar vörur og þjónustu. Sýningin er árleg en bæklingurinn „Upp í sveit 2011“ kemur út á sama tíma.

Sýningin er öllum opin og stendur báða dagana frá kl. 10-18. Þar gefst gestum tækifæri á að kynna sér fjölbreytta ferðamöguleika á Íslandi, skoða, spjalla og spyrja, bragða á íslenskum krásum og njóta fjölbreyttra uppákoma. Að Íslandsperlum standa markaðsstofur landshlutanna í ferðaþjónustu, Ferðaþjónusta bænda, Opinn landbúnaður og Beint frá býli.

Sýningargestum verður boðið að ganga hringinn í kringum landið og fá smjörþefinn af því besta sem ferðalöngum stendur til boða í sumar.

Á Íslandsperlum í ár er athyglinni beint að vatni í öllum sínum myndum; ánum, lækjunum, jöklunum, skíðasvæðunum, sundlaugunum og sjónum umhverfis landið verður gert hátt undir höfði. Fossar falla niður veggi og brúað verður yfir læki sem liðast á milli landshluta þar sem ferðaþjónustuaðilar kynna spennandi möguleika og nýjungar fyrir komandi ferðasumar.

Nánari upplýsingar um FB, BFB og OL er að finna á vefnum;

www.sveit.is
www.bfb.is
Opinn landbúnaður


Bás Ferðaþjónustu bænda, Opins landbúnaðar og Beint frá býli árið 2010.