Bændur hvattir til að senda haggögn til BÍ!
18.08.2009
Undanfarið ár hafa Bændasamtök Íslands ráðið yfir gagnagrunni sem auðvelt er að senda gögn úr dkBúbót beint inn í. Nú þegar hafa nokkuð á annað hundrað bú sent inn gögn, nokkur ár aftur í tímann. Umfangið er því orðið slíkt að úrvinnsla gagnanna gefur haldgóðar niðurstöður. Samkvæmt eðli máls gera þær ekkert annað en að batna, þar sem búum á bara eftir að fjölga. Hægt er að senda gögn inn svo oft sem verða vill, mánaðarlega eða eftir hvert virðisaukaskattsuppgjör, því oftar því betra. Með því er hægt að sjá hver þróun rekstrarins hefur verið í mjög náinni fortíð, hver er þróun á verði aðfanga, notkun þeirra o.s.frv.
Á þrengingatímum er gríðarlega mikilvægt að sjá hvar skóinn kreppir í búskapnum, í þeim efnum eru grunnar sem þessi mikilvægt tæki. Með því að smella hér má sjá leiðbeiningar um innlestur gagna og hér er yfirlýsing þar sem rekstraraðili heimilar BÍ að nota gögnin. Gögnum er ekki hleypt inn í grunninn fyrr en sú yfirlýsing hefur borist, undirrituð. Markmiðið með söfnun slíkra gagna er að gera kleyft að nýta þau til einstaklingsmiðaðrar rekstrarráðgjafar, sem og almennra hagrannsókna. LK vill hvetja bændur til að senda gögn inn í grunninn, svo langt aftur sem þau ná.