
Bændur gegn neytendum? – Grein Haraldar Benediktssonar í Mbl. 2. ágúst 2008
05.08.2008
Viðræðuslit WTO eru mörgum hugleikin. Flestir sem tjá sig telja neytendur hafa orðið af vænum ávinningi. En er svo? Frá því að viðræðulotan, sem kennd er við Doha, hófst 2001 hafa orðið grundvallarbreytingar á matvælaframboði í heiminum. Oftar er nú rætt um matvælaöryggi, hvort þjóðir eigi eða hafi aðgang að mat. Ótrúlegt á 21. öldinni. Þá er flestum kunnugt um að matarverð fer hækkandi í flestum löndum. Hækkun eldsneytis og matvæla kyndir undir verðbólgu, ekki bara á Íslandi. Ein af afleiðingum samkomulags sem fyrir lá í Genf er sú að matarverð í heiminum hækkar, en hérlendis er jafnan talað eins og það hefði bara orðið til að lækka verð.
Samdráttur í framlögum til landbúnaðar getur hins vegar ekki haft aðrar afleiðingar en að matarverð hækki, í viðbót við hækkanir sem nú þegar eru framkomnar. Afleiðingar lækkunar tolla á heimsviðskiptin eru smávægileg. Heimsmarkaður með landbúnaðarvörur er afar lítill. Þannig eru Nýsjálendingar með um þriðjung af öllum heimsviðskiptum með landbúnaðarvörur, þ.e. kjöt og mjólk. Forstjóri WTO mat umfang tollalækkana á landbúnaðarvörum skv. fyrirliggjandi samkomulagsdrögum sem 35 milljarða dollara á heimsvísu. Það eru rúm 7% af áætluðum fjárlagahalla Bandaríkjanna – bara á þessu ári. Niðurfelling útflutningsbóta, sem Ísland aflagði um 1990, mun einnig valda miklum hækkunum.
Er þá ekkert að óttast?
Í framhaldi af viðræðuslitum hefur verið spurt: breytist þá ekkert hér á landi? Bændasamtökin hafa lýst sig tilbúin til viðræðna um breytingar sem falla að þeim hugmyndum sem lágu á borði samningamanna í Genf. Það höfum við
reyndar þegar gert í samningum okkar, mjólkursamningi frá 2004 og samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 2007. Þar er leitast við að laga okkar umhverfi að reglum WTO. Þá hafa stjórnvöld einhliða þegar lækkað tolla um tugi prósenta og samið um frekari innflutning á búvöru. Aðgerð sem bændur finna verulega fyrir nú þegar, en neytendur kannski síður. Það er sérstakt umræðuefni. Þá er í meðförum Alþingis frumvarp um innleiðingu á matvælalöggjöf ESB sem breytir samkeppnisaðstöðu okkar verulega.
Mörgum þætti þegar nóg að gert í að herða að kjörum einnar stéttar. Sem líkingu mætti skýra þetta sem svo að launþegi hefði þegar afsalað sér hluta vinnutímans til annarra og að auki gefið verulega eftir af kjörum sínum og réttindum, án þess að fá nokkuð á móti.
Íslensk landbúnaðarvara er tæplega helmingur af matvælainnkaupum okkar. Ísland býr við frjálslyndi í viðhorfum til heimsviðskipta með búvöru. Hingað er flutt án verulegra eða nokkurra tolla búvara annarra ríkja, hvort sem þau tilheyra þriðja heimunum eða ekki. Hvers vegna fást þær vörur ekki á heimsmarkaðsverði hér? Lækkuð framlög til landbúnaðar á heimsvísu munu hækka matarreikning íslenskra heimila. Enda er staðreyndin nú að hækkað matarverð í heiminum, ásamt gengislækkun, hefur birst okkur í 20-25% hækkun á innfluttri matvöru, undanfarna mánuði. Langt umfram hækkun innlendrar búvöru.
Við þökkum fyrir það nú að búa að íslenskum landbúnaði og innlendri framleiðslu. Án hans hefðum við mun hærri matarreikning og tilsvarandi verðbólgu. Að ógleymdum áhrifum á lánin okkar. Við verðum að sjá heildarmyndina, en ekki svarthvítu stillimyndina um íslenskan landbúnað sem ætíð er reynt að sýna. Að íslenskir bændur og landbúnaður standi í
vegi fyrir bættum hag neytenda.
Svo er alls ekki.