Beint í efni

Bændur funda með yfirvöldum vegna jarðhræringa í Vatnajökli

20.08.2014

Fulltrúar frá Bændasamtökum Íslands áttu fund miðvikudagsmorguninn 20. ágúst með landbúnaðarráðherra, starfsmönnum atvinnuvegaráðuneytisins og fulltrúa Almannavarna ríkisins vegna jarðhræringanna í norðvestanverðum Vatnajökli. Rætt var um stöðu mála og hvernig bændur og yfirvöld geta búið í haginn ef eldgos verður í Bárðarbungu með tilheyrandi hamfaraflóði. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, lagði áherslu á að haldinn yrði fundur sem fyrst með íbúum á svæðunum sem um ræðir. Mikilvægt væri að stjórnkerfi og viðbragðsaðilar yrðu heimamönnum til aðstoðar ef gos hefst. Þá væri nauðsynlegt að skipuleggja viðbrögð og meta hvar búpeningur er í beitarhögum ef til öskufalls kemur.

Ekki til flóðalíkön af svæðinu
Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi og verkefnastjóri hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, greindi fundarmönnum frá stöðu mála og því starfi sem nú fer fram í tengslum við mögulegt gos. Í máli hans kom m.a. fram að verið væri að kortleggja svæðið og leggja mat á þær hættur sem hamfarahlaup og hugsanlegt sprengigos hefði í för með sér. Engin flóðalíkön eru til af svæðinu en menn reyna að meta áhrif mögulegra flóða á nokkrum stöðum. Líklegast er talið að flóð færi niður Jökulsá á Fjöllum. Ekki eru til formlegar viðbragðsáætlanir vegna flóða á svæðunum sem um ræðir.

Töluvert fé í beitilöndum
Á fundinum var rætt um búskap og búfénað á áhrifasvæði mögulegra flóða. Töluvert af sauðfé er í beitilöndum nálægt þeim slóðum sem eru undir. Leggja þarf mat á bústofn á svæðinu og gera áætlanir um rýmingu og smölun ef til þess kemur. Þó svo að tölur úr forðagæsluskýrslum í nálægum byggðum gefi ekki raunsanna mynd af búfénaði á hættusvæðum þá eru um 17.000 vetrarfóðraðar kindur í Norðurþingi, 4.500 í Mývatnssveit, 19.000 í Þingeyjarsveit og 1.800 í Tjörneshreppi. Í Svalbarðshreppi eru rúmlega 7.000 kindur og um 5.000 í Langanesbyggð. Að auki þessum tölum bætast við lömb sem ganga með mæðrum sínum á afréttum og í beitilöndum. Áætla má að á þessum svæðum séu um 2.000 hross.


Mynd / skelfir.is