Beint í efni

Bændasamtökin vilja fresta afgreiðslu frumvarps um matvælalög

29.04.2008

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna segir ýmislegt vanta í frumvarp landbúnaðarráðherra um endurskoðun á undanþáguákvæðum Íslendinga vegna upptöku hluta af evrópsku matvælalöggjöfinni. BÍ geti ekki tekið afstöðu til frumvarpsins á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga sem liggi fyrir um ýmsa þætti þess. Á þeim forsendum leggjast samtökin gegn því að frumvarpið verði keyrt í gegn á Alþingi á næstu vikum og mæla með að því verði frestað til haustsins.

„Of margir endar eru lausir í frumvarpinu og ýmis framkvæmdaratriði óljós. Það á eftir að meta efnahagslegar afleiðingar þess fyrir byggðirnar að heimila innflutning á fersku kjöti til landsins. Þá er mörgum spurningum ósvarað sem tengjast sjúkdómavörnum og kostnaði sem aukið eftirlit hefur í för með sér,“ segir Haraldur og bætir því við að allt frá því að skýrsla starfshóps um breytingar á Viðauka 1 í EES-samningnum var kynnt hafi Bændasamtökin lagt áherslu á þá áhættu sem fylgdi erlendum búfjársjúkdómum og ítrekað nauðsyn á markvissum mótvægisaðgerðum. „Það liggur fyrir í ályktun stjórnar BÍ, frá 22. feb. 2006, að gæta verði að slíkum þáttum og varað við miklu eftirlitskerfi. Ályktunin var send stjórnvöldum og afstaða BÍ hefur verið skýr í langan tíma,“ áréttar Haraldur og segir að samhliða breytingunum sé nauðsynlegt að koma okkur upp vottuðum upprunamerkingum á kjötvörur en neytendur eigi beinlínis rétt á því. Það sé hins vegar kostnaðarsamt og tímafrekt ferli að hans mati.

Fram hefur komið að margt í framkvæmd laganna verður útfært síðar með reglugerðum, en frumvarpið innifelur allt að 42 heimildir til setningar reglugerða. Að mati BÍ er þetta ótækt og þar vísa þau m.a í þætti eins og skráningarskyldu og starfsleyfi. „Yfirvöld verða að tala skýrt um það hver muni borga brúsann vegna aukinna kvaða um eftirlit og ýmsar leyfisveitingar sem frumvarpið hefur í för með sér. Samtök bænda gera þá kröfu að raunhæf og vel rökstudd áætlun verði gerð um þann kostnað sem fylgir lagasetningunni, m.a. í formi gjaldtöku fyrir starfsleyfi, sýnatöku, eftirlit og aðlögun,“ segir Haraldur.

Fyrir bændur er á þessu stigi erfitt að sjá hvaða áhrif einstaka eftirlits-, leyfis- og gjaldtökuheimildir frumvarpsins hafa á núverandi búrekstur. Með frumvarpinu er t.d. öll fóðurframleiðsla gerð tilkynningaskyld en ekki er ljóst hvernig framkvæmd þeirra ákvæða verður háttað.

Óvissa um áhrif á atvinnulíf
Víða í afurðastöðvum eru menn uggandi um áhrif lagabreytinganna. Erfitt er að meta áhrif aukins innflutnings á fersku kjöti en forsvarsmenn kjötiðnaðarins hafa nefnt 30-35% samdrátt í innlendri vinnslu. Haraldur Benediktsson segir að eins og staðan sé núna í þjóðfélaginu eigi að leggja allt kapp á að vernda störf í landinu: „Veltum fyrir okkur t.d. kjötvinnslu á Kópaskeri, Húsavík, Akureyri, Blönduósi, Selfossi, Hvolsvelli eða í Mosfellsbæ. Hver verða áhrifin á þessum stöðum? Það liggur í augum uppi að staða afurðastöðvanna og kjötvinnslunnar í landinu þrengist verulega.“

Ábyrgðarlaust að afgreiða málið með hraði
Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri BÍ, telur óraunhæft að vinna umsögn um frumvarpið á þeim hraða sem ætlast er til af stjórnvöldum. „Þrátt fyrir að við höfum lagst vandlega yfir málið, bæði með okkar fólki og utanaðkomandi sérfræðingum, þá getum við ekki skilað umsögn sem er nægilega ábyrg af okkar hálfu fyrir þann frest sem gefinn er. Bændasamtökin fengu frumvarpið til umsagnar 9. apríl sl. með umsagnarfresti til 21. apríl en hafa fengið frest til 6. maí. Lagafrumvarpið er einfaldlega ekki nægilega skýrt til þess að bændur geti áttað sig á áhrifum þess,“ segir Eiríkur.

Nánar er fjallað um atriði sem tengjast breytingum á lögum vegna endurskoðunar á undanþágum EES-samningsins í 8. tbl. Bændablaðsins á síðu, 2, 4 og 6. Hægt er að nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella hér.
- TB