Beint í efni

Bændasamtökin veita umsögn um matvælafrumvarpið að nýju

26.03.2009

Bændasamtök Íslands hafa að nýju sent sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis umsögn sína um matvælafrumvarpið svokallaða. Frumvarpið hefur tekið umtalsverðum breytingum frá því það var fyrst lagt fram en eins og kunnugt er voru bændur mjög óánægðir með frumvarpið og töldu ljóst að ef það yrði samþykkt óbreytt myndi það þýða hrun fyrir íslenska kjötframleiðslu. Bændasamtökin unnu mjög ítarlega umsögn um frumvarpið þar sem meðal annars var leitað umsagnar Lagastofnunar Háskóla Íslands og dr. Margrétar Guðnadóttur prófessors í sýklafræði.

Í nýrri umsögn BÍ kemur fram að þau geti alls ekki sætt sig við innflutning á hráu, ófrosnu kjöti. Samtökin telja að slíkur óheftur innflutningur valda því að nánast útilokað sé að koma í veg fyrir að hingað til lands berist sjúkdómar sem tekist hefur með miklum ágætum að koma í veg fyrir að nái fótfestu hér á landi. Er þar ekki síst horft til kamfýlóbakter og salmónellusýkinga en einnig annarra sjúkdóma. Þar að auki má gera ráð fyrir að markaðsstaða íslenskra afurða muni bíða mikinn skaða ef frumvarpið verður samþykkt eins og það lítur út nú.

Megináhersla á þrjú atriði
Segja má að Bændasamtökin leggi megin áherslu á þrennt í umsögninni. Fyrir það fyrsta er lögð áhersla á að ekki verður leyfður óheftur innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti. Samtökin leggja til að áfram verði lagt bann við slíkum innflutningi en ráðherra hafi tök á að veita undanþágu frá banninu enda liggi fyrir umsögn Matvælastofnunar um innflutninginn og ljóst megi vera að ekki sé hætta á að til landsins berist sýktar afurðir. Ef ekki verði fallist á þessa leið leggja Bændasamtökin til vara til að innflutningur á þessum afurðum verði heimilaður með mun strangari eftirliti en lagt er til í frumvarpinu. Matvælastofnun láti þá fara fram rannsókn á öllum afurðum sem til landsins koma áður en þær fara í dreifingu og sölu til að ganga úr skugga um að þær séu heilnæmar.

Í öðru lagi gera Bændasamtökin kröfu um að komið verði á sjálfstæðu Matvælaráði sem verði stjórnvöldum til aðstoðar við eftirlit heilbrigðismál á þessu sviði. Ráðið myndi vera stjórnvöldum til aðstoðar við setningu laga og reglna og auk þess veita sérfræði- og vísindaráðgjöf.

Í þriðja lagi benda samtökin á að þessar breytingar á frumvarpinu sem áður er lýst eiga sér, sem og ýmsar aðrar breytingar sem lagðar eru til eiga sér stoð í 13. grein EES-samningsins þar sem heimilað er að veita undanþágu frá innflutningi á vöru teljist varan heilsuspillandi eða stofni almannaöryggi í hættu.

Bændasamtökin benda í umsögn sinni á leiðir til að breyta þeim ákvæðum laganna sem þau telja að íslenskur landbúnaður geti alls ekki búið við. Þar í ofanálag eru í umsögninni færð rök fyrir því að íslenskir framleiðendur hafi öðlast lögmætar væntingar til þess að sú réttarstaða sem ríkir á sviði framleiðslu búfjárafurða muni haldast lítt breytt. Sömuleiðis er hnykkt á þeirri staðreynd að skammur aðlögunartími samningsins, markaðsaðstæður og tollvernd sú sem íslenskar landbúnaðarafurðir búa við nægi ekki til þess að vernda innlendan landbúnað gegn erlendum innflutningi.  

Umsögnina má lesa í heild sinni með því að smella hér.