Bændasamtökin telja áhrif Hæstaréttardómanna víðtæk
21.06.2010
Í tilkynningu frá Bændasamtökum Íslands (BÍ) kemur fram að BÍ telja augljóst að nýfallnir Hæstaréttardómar um ólögmæti gengistryggingar muni hafa veruleg áhrif á skuldastöðu og lánamál bænda eins og annarra heimila á landinu. Eins telja BÍ að áhrifin séu víðtæk og nái til mun fleiri lánasamninga en bíla- og tækjalána þrátt fyrir yfirlýsingar
sumra lánastofnana.
Bændasamtökin munu fara ítarlega yfir dómana ásamt lögfræðingum og kanna helstu tegundir lánasamninga bænda vegna mögulegra áhrifa dómana á þá. Eins munu BÍ fylgjast náið með viðbrögðum fjármálastofnana og stjórnvalda vegna þessa og gæta hagsmuna bænda eins og kostur er enda augljóst að til viðbragða þeirra þarf að koma til þess að eyða þeirri óvissu sem uppi er.
Ljóst er að það mun taka einhvern tíma að fara yfir þessi mál og mun BÍ vera í samstarfi við búnaðarsamböndin um land allt og miðla upplýsingum um gang mála til þeirra. Þá verða birtar upplýsingar á vefnum bondi.is eftir því sem mál skýrast.
Bændasamtökin geta ekki veitt upplýsingar um áhrif dómana á einstaka mál að svo stöddu, en fyrirspurnir má senda á Jóhönnu Lind rekstrarráðunaut jle@bondi.is eða Elías Blöndal lögfræðing elias@bondi.is og eins eru allar ábendingar og upplýsingar um lánamál bænda vel þegnar. Enn fremur eru upplýsingar um viðbrögð fjármálastofnana eða tilboð þeirra til einstakra lántaka vel þegnar.
Landssamband kúabænda hvetur alla kúabændur, sem telja niðurstöður Hæstaréttardómanna varða skuldamál þeirra, að hafa samband við Bændasamtökin með fyrirspurnir varðandi þeirra mál. Einnig eru kúabændur hvattir til þess að láta Bændasamtökin vita um leið og viðbrögð frá lánastofnunum berast.
Heimild: www.bondi.is